Útvarpi Sögu hefur borist öflugur liðsauki í aðdraganda kosninganna en Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er komin í tímabundið verkefni hjá útvarpsstöðinni og mun leggja kosningaútvarpi Sögu lið næstu tvær vikurnar.
Á vertíð, í sláturtíð og heyskap þarf margar hendur. Nú eru kosningar og mikið um að vera á einni útvarpsstöð. Ég hef samþykkt að hlaupa undir bagga með Útvarpi Sögu næstu tvær vikurnar – timabundið verkefni til þess að létta undir á meðan mesta atið stendur yfir,
segir Ólína. Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri hefur boðið Ólínu velkomna á Facebook og á vef Útvarps Sögu segir að þjóðfræðingurinn, fjölmiðlakonan og þingmaðurinn fyrrverandi hafi „yfirgripsmikla þekkingu á stjórnmálum líðandi stundar.“
Ólína er, eins og við mátti búast, þegar komin á fulla ferð og fyrsti þáttur hennar fer í loftið á Útvarpi Sögu klukkan 17 í dag. Þá ræðir hún við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, Jónu Sólveigu Elínardóttur, þingkonu Viðreisnar, og Oddnýju Harðardóttur þingkonu Samfylkingarinnar en heilbrigðismálin verða í brennidepli.
Ólína verður á dagskrá þrisvar í viku fram að kosningum og mun fá til sín „stjórnmálamenn og stjórnspekinga til þess að ræða kosningamálin og horfurnar,“ eins og hún orðar það.