fbpx
Mánudagur 21.júlí 2025
Eyjan

Þorskastríð Norðmanna og Íslendinga: „Þetta er hrein milliríkjadeila“

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 15. október 2017 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Strandgæslan greip til aðgerða gagnvart íslensku skipunum á Svalbarðasvæðinu aðfararnótt 21. júní 1994 og lá við stórslysi þegar strandgæsluskipið Senja sigldi á fullri ferð 2–3 metra fyrir framan Drangey SK meðan Björn skipstjóri bakkaði Drangeynni á fullri ferð til að forða árekstri. Þessar myndir voru teknar þá um nóttina af Gunnari Magnús­syni stýrimanni um borð í Drangey.

Út er komin bókin Smugudeilan eftir Arnór Snæbjörnsson. Formála ritar Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og forseti Íslands. Útgefandi er Sæmundur.

Í bókinni er rakin saga Smugudeilunnar á tíunda áratug 20. aldar sem um sumt minnti á þorskastríðin fyrr á öldinni. Munurinn var að nú voru það Íslendingar sem voru eltir af varðskipum.

Upphaf veiðanna í Smugunni mátti rekja til erfiðleika hjá íslenskum útgerðarfyrirtækjum. Verð á mörkuðum fór lækkandi og á sama tíma var samdráttur í þorskafla hér heima. Margir íslenskir útvegsmenn litu svo á að þeir ættu enga skuld að gjalda Norðmönnum, en tekist var á um veiðarnar bæði á Íslandi og í Noregi.

Lengi varð engin niðurstaða af samtölum íslenskra, norskra og rússneskra ráðamanna, sem reyndu m.a. á túlkun og beitingu þjóðaréttar um veiðar í úthafinu, sem var í mótun á þessum tíma. Eftir langvinnar viðræður, sem stóðu með hléum í sex ár, náðist loks þríhliða samningur milli ríkjanna, sem enn er í gildi.

Í þessu riti er saga þessarar deilu, Smugudeilunnar, gerð aðgengileg almenningi í líflegri og auðskiljanlegri samantekt Arnórs Snæbjörnssonar sagnfræðings og lögfræðings. Arnór hefur auk menntunar á þessu sviði áralanga reynslu sem starfsmaður sjávarútvegsráðuneytisins.

Blaðið grípur hér niður í bók Arnórs þar sem deila Íslendinga og Norðmanna er í algleymingi. Tilvísunum og neðanmálsgreinum úr bókinni er sleppt í þessari tilvitnun blaðsins. Millifyrirsagnir eru blaðsins.

Þorskastríð Norðmanna og Íslendinga

Útbreiddasta blað Noregs, Verdens Gang, sló því upp á forsíðu 15. júní, með stríðsletri, að hafið væri „FULL TORSKEKRIG MED ISLAND“. Olsen sjávarútvegsráðherra sagði að Norðmenn hefðu sýnt að þeir væru tilbúnir til að grípa til harðra aðgerða til að stöðva ólöglegar veiðar og virðast þessar „stríðsaðgerðir“ hafa notið almenns stuðnings meðal stjórnmálamanna í Noregi, en náðst hafði tal af fulltrúum allra flokka á næturfundi á Stórþinginu þegar fréttir af þeim bárust.

Aftenposten komst svo stórkarlalega að orði að Ísland og Noregur ættu í verstu deilum „síðan Norðmenn kristnuðu eyríkið í vestri“. Í viðtali við blaðið upplýsti Godal utanríkisráðherra að sendiherra Íslands hefði gefið skýr skilaboð um að íslenska ríkisstjórnin hefði á engan máta hvatt til veiðanna á Svalbarðasvæðinu. Þá sagði hann Noreg standa sterkt þjóðréttarlega og því hafa engu að tapa yrði ágreiningi ríkjanna skotið til Haag.  Norskir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fögnuðu aðgerðum strandgæslunnar og sögðu aðgerðirnar vera það sem Íslendingar ættu skilið, en samtök í sjávarútvegi hefðu lengi þrýst á norsk stjórnvöld að grípa til harðari aðgerða gegn Íslendingum.

Samherjamenn tilbúnir í stríð

Meðal íslenskra útvegsmanna virðist hafa verið ánægja með viðbrögð íslenskra ráðamanna. „Þetta er hrein milliríkjadeila“ og ekki „einkamál fáeinna útgerðarmanna,“ sagði Gísli Svan Einarsson, útgerðarstjóri Drangeyjar og Hegraness sem höfðu verið að veiðum á Svalbarðasvæðinu.  Á forsíðu Aftenposten 16. júní sagði Gísli Svan að veiðum yrði að öllum líkindum haldið áfram á svæðinu þrátt fyrir grófar aðgerðir norskra stjórnvalda.  Í viðtali við Dagbladet sama dag sagði Þorsteinn Már Baldvinsson að „Noregur hafi beðið um þorskastríð – og það skuli Noregur fá“.

Samherji myndi senda sjö til átta skip til veiða á Svalbarðasvæðinu að aflokinni lýðveldishátíðinni 17. júní, en þar voru norsku konungshjónin meðal heiðursgesta. „Friðurinn er úti,“ sagði Þorsteinn Már, „þegar kóngurinn er farinn af landi brott.“ Hann vildi ekki útiloka að tugir íslenskra skipa héldu til veiðanna, en margir hefðu hug á að taka þátt í veiðum þar. Slíkur fjöldi skipa mundi gera strandgæslunni erfiðara fyrir að hindra veiðarnar. Strandgæslan mætti „bara klippa á trollin“, en skipin mundu ná þeim upp aftur á 10–12 klukkustundum.

Íslendingar kenndu Norðmönnum að klippa troll

Guðmundur Kjærnested, fyrrum skipherra hjá Landhelgisgæslunni, áleit skipstjóra eiga góða möguleika á að verjast þannig að klippum yrði ekki komið við. Á skuttogurum geti menn bakkað og híft inn. Þá vísi vírinn lóðrétt niður og þá sé ekki hægt að klippa. En þetta kalli á að menn séu vakandi og viti að þessi hætta sé yfirvofandi. Guðmundur taldi aðgerðir Norðmanna á Svalbarðasvæðinu sambærilegar aðferðum íslensku varðskipanna í þorskastríðunum, en þá hefðu varðskipsmenn siglt með svipuðum hætti að togurum og herskipin við Svalbarða og verið sakaðir um að brjóta siglingareglur.

„Ef að við förum að tala um það núna að þetta sé stórhættulegt,“ sagði hann, „þá erum við búnir að stunda þennan leik í mörg ár; við fundum leikinn upp og þróuðum hann í hendurnar á Norðmönnum. Þeir komu hingað oft og við sýndum þeim þetta enda datt okkur ekki í hug að okkar skip ættu eftir að lenda í þessu hjá þeim.“

Réttur Íslands á Svalbarðssvæðinu

Að baki aðgerðum íslensku útvegsmannanna lá skilningur á réttarstöðu Svalbarðasvæðisins, sem smám saman hafði orðið til í aðdraganda aðildar Íslands að samningnum og í samtölum manna á milli. Í viðtali við Dagbladet 16. júní sagði Þorsteinn Már Baldvinsson íslensk stjórnvöld hafa gert stórkostlega uppgötvun síðasta vetur (n. sensasjonell oppdagelse): Það sé fullljóst og ekki undirorpið neinum vafa að Íslendingar njóti réttinda á Svalbarðasvæðinu. Það muni útgerðarmenn sýna fram á komi til þess að strandgæslan færi eitt einasta skip til hafnar.  Sama dag var Svalbarðasamningurinn birtur í heild í Morgunblaðinu og haft eftir Gunnari G. Schram lagaprófessor og Magnúsi Thoroddsen hrl. að aðgerðir Norðmanna væru til marks um að þeir álitu réttarstöðu sína veika.

Óvissa um réttarstöðu Svalbarðasvæðisins var ekki bundin við túlkun þjóðaréttar. Norsk löggjöf um heimildir stjórnvalda til að stjórna fiskveiðum við Svalbarða virtist um sumt ófullkomin og óljós. Í viðtali við NTB-fréttastofuna 15. júní sagði Geir Ulfstein að gerðu Íslendingar alvöru úr þeirri hótun að fara með málið fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag, ættu Norðmenn góða möguleika á að fá það sjónarmið sitt viðurkennt að ríkið ætti fullan rétt á að vísa íslenskum togurum út af verndarsvæðinu. Þó að það hljómaði öfugsnúið þá stæðu Norðmenn sjálfsagt sterkar að vígi í Haag en fyrir norskum dómstólum. Ef strandgæslan hefði kosið að vísa togurum til hafnar í Noregi væri ólíklegt að þeir hefðu verið dæmdir fyrir norskum dómstólum. Norsk lög og reglugerðir næðu yfir ákvarðanir um vernd fiskistofna og möskvastærð. Að auki hefði verið ákveðinn þorskkvóti fyrir svæðið, en honum væri ekki skipt upp á milli landa. Þess vegna hefðu íslensku togararnir ekki brotið gegn neinum norskum lögum eða reglugerðum.

Brundtland sagði Íslendinga á þjófaveiðum

Kosmo varnarmálaráðherra og Godal utanríkisráðherra lýstu því engu að síður yfir að aðgerðum gegn íslensku skipunum yrði haldið áfram. Olsen sjávarútvegsráðherra, sem var í nánum tengslum við Brüssel vegna aðildarviðræðnanna, hélt því að auki fram að „lína Noregs“ í „þorskastríðinu“ hefði stuðning Evrópusambandsins.  Mikið eftirlit var með veiðum á Svalbarðasvæðinu en þar voru fjögur strandgæsluskip og Orion-flugvél. Íslensku skipin, fimm talsins auk tveggja íslenskra hentifánaskipa, fengu lítinn frið til að stunda veiðar, en raunar sammæltust skipin um að stunda engar veiðar á svæðinu fyrr en heimsókn Noregskonungs á Íslandi væri lokið, þ.e. frá fimmtudegi 16. júní fram á laugardagskvöld 18. júní.  Hins vegar var skorið á annan togvír Stakfells 18. júní og voru frekari aðgerðir í undirbúningi.

Í viðtali í Aftenposten 19. júní ítrekaði Jón Baldvin Hannibalsson að „Noregur hefði boltann“ hvað snerti samninga um veiðarnar í Barentshafi og kvaðst hann bíða eftir því að Godal utanríkisráðherra hringdi og byði honum til viðræðna. Aðspurður um hvort mikill fjöldi íslenskra skipa væri við það að halda til veiða á Svalbarðasvæðinu sagðist Jón Baldvin hvorki geta staðfest það né neitað því. Togararnir hefðu enga tilkynningaskyldu til ríkisstjórnarinnar „svo við vitum ekki hvar þeir eru,“ sagði hann. Sem svar við þessu sagði Godal utanríkisráðherra í viðtali við Aftenposten að norsk stjórnvöld stæðu sterkt þjóðréttarlega séð og íslensk stjórnvöld hefðu misskilið Svalbarðasamninginn. Aðild að honum gæfi ekki rétt til fiskveiða, þar sem úthlutun slíkra heimilda byggði á veiðireynslu og meginreglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Fengi Ísland veiðikvóta á Svalbarðasvæðinu yrðu önnur aðildarríki einnig að fá slíkar heimildir. Því væru ekki aðstæður til að hefja viðræður við Íslendinga. Gro Harlem Brundtland forsætisráðherra tók sterkar til orða og sagði Íslendinga stunda þjófaveiðar (n. tyvfiske) á Svalbarðasvæðinu.

Hættulegar aðgerðir Norðmanna

Svo virðist, við þessar aðstæður, sem strandgæslan hafi fengið heimild til að grípa til enn harðari aðgerða gegn veiðum íslensku skipanna í þeim tilgangi að setja skýrt fordæmi. Aðfaranótt 21. júní gerði strandgæsluskipið Senja aðgangsharðar og ítrekaðar tilraunir til að klippa á togvíra Más SH, en fjögur íslensk fiskiskip reyndu að skýla Má. Þau voru í hnapp í kringum hann þegar aðgerðirnar hófust.

Áhöfnum íslensku skipanna bar saman um að lífi sjómanna hefði verið stefnt í stórhættu við aðgerðirnar. Senja hefði þannig stefnt beint á stefni Drangeyjar SK, sem auðnaðist að bakka í tæka tíð, en Senja sigldi á fullri ferð aðeins 2–3 metra framan við togarann. Skipstjóri Drangeyjar, Björn Jónasson, sagði að hefði skipið ekki verið „svona fljótt að taka við sér aftur á bak“ hefði skipherrann á Senju „sniðið framendann af og mennina sem voru sofandi fram í hefði hann steindrepið“. Þá hefðu sjómenn á Má verið við vinnu á dekki þegar aðgerðirnar hófust og því verið í stórhættu. Björn taldi ljóst að strandgæslan svifist einskis og mundi ekki hika við að keyra íslensku skipin niður. Því væri ekki forsvaranlegt að tefla mannslífum í hættu við áframhaldandi veiðar.

„Nú verður háttvirt ríkisstjórn að gera eitthvað annað en að tala um að þetta verði kært […],“ sagði í lok skeytis sem hann sendi af miðunum, en öll skipin sigldu heim til Íslands eftir þetta utan eitt sem hélt til veiða í Smuguna.  Atburðarásin var tekin upp á myndband og Guðmundur Kjærnested, sem var viðstaddur sjópróf á Akureyri fáum dögum síðar, sagði að þegar Senja (3.240 tonn, 105 metrar að lengd, hraði 23 sjómílur) hefði verið nærri búin að sigla Drangey niður hefði verið um að ræða gróft brot á siglingareglum sem ekki væri sæmandi löggæsluskipi (Senja kom bakborðsmegin að Drangey og bar því að víkja). Það hefði verið snarræði skipstjórans á Drangey sem forðaði árekstri í það skipti.

Áhöfnum skipanna var fagnað vel við komuna til Íslands, en milli 200 og 300 manns tóku á móti skipverjum á Drangey þegar hún lagðist að bryggju á Sauðárkróki 23. júní. Áhöfninni voru færð blóm og minjagripir frá útgerðinni. Dansað var á hafnarbakkanum og munu björgunarsveitarmenn hafa sett á svið „eins konar Flóabardaga, þar sem barist var á gúmmíbátum“, að því er Morgunblaðið greindi frá.

Íslendingar fordæma aðgerðir Norðmanna

 Ríkisstjórnin „fordæmdi harðlega“ þessar „aðfarir“ í sérstakri yfirlýsingu. Norska strandgæslan var sögð beita aðferðum „sem samtök á borð við Greenpeace hefðu hingað til ein notað“ en vildi hvorki bera „ágreining sinn við íslenska sjómenn“ undir norska né alþjóðlega dómstóla og kom fram að leitað yrði álits „viðurkenndra erlendra þjóðréttarfræðinga“ um réttarstöðuna á Svalbarðasvæðinu.  Þetta vakti athygli í Noregi og ýtti meðal annars við Carl August Fleischer, prófessor og fv. þjóðréttarfræðingi norska utanríkisráðuneytisins sem í aðsendri grein í Morgunblaðinu 26. júní reifaði efnisákvæði Svalbarðasamningsins og aðdraganda hans, og lýsti túlkun á fyrirmælum hans um jafnan rétt aðila til að stunda atvinnustarfsemi. Fleischer sagði að „hið raunverulega jafnræði“ aðila Svalbarðasamningsins, sem Norðmenn hefðu kosið að beita á fiskverndarsvæðinu, hlyti „að felast í því að deila út kvótum í samræmi við hlutlaust, vísindalegt mat og án þess að hygla sjómönnum strandríkisins“. Þar væri „nærtækast að skipta kvótum með tilliti til fyrri veiða“. Hann mælti á móti því að ágreiningur ríkjanna yrði borinn undir Alþjóðadómstólinn í Haag enda taldi hann að það gæti skaðað hagsmuni beggja landanna, en málskot til dómstólsins væri alls ekki sambærilegt því að leita til venjulegra dómstóla í lýðræðisríki. Þá taldi hann að það væri í ósamræmi við stefnu Íslands og Noregs um ábyrga stjórnun fiskveiða eins og hann reifaði nánar.

Þorsteinn Pálsson kvað Fleischer vera flestum íslenskum lögfræðingum að góðu kunnur, en sjálfur hefði hann lesið þjóðarétt hans í lagadeildinni. Um greinina væri „ekki annað að segja en að ríkisstjórnin [hefði] ákveðið að leita til erlendra þjóðréttarfræðinga til þess að fá óháð mat á þessari stöðu“ og rétt væri að bíða með frekari yfirlýsingar þangað til slíkt álit lægi fyrir.  Gunnar G. Schram svaraði Fleischer með stuttri grein í blaðinu daginn eftir, þar sem hann sagði meðal annars að svonefnd útilokun samningsaðila á Svalbarðasvæðinu fæli í sér óheimila sjálftöku Norðmanna, enda fælist í henni mismunun. Það væri ekki hægt að útiloka Íslendinga frá veiðum á svæðinu, „þótt vart sé hægt að gera þá kröfu að allar þjóðir ættu að fá jafn stóran kvóta“. „Eðlilegt væri að við þá úthlutun væri meðal annars tekið tillit til fiskveiðaþarfa ríkjanna, nálægðar þeirra við miðin og aflareynslu í fortíðinni“, en á grundvelli þess mundu Íslendingar eiga kröfu til nokkurs aflahlutar. Samningar milli Íslendinga og Norðmanna um margþætta fiskveiðihagsmuni þjóðanna, sem hann rakti nánar, væru „eina viturlega leiðin“, en ella biði Alþjóðadómstólsins suður í Haag það verkefni að fá Svalbarðadeiluna í sínar hendur.

Þá vakti athygli að Jens Evensen, fyrrum hafréttarráðherra, sagði í viðtali við norska sjónvarpið 15. júní að „mikilvægt væri að standa á rétti sínum, en gæta yrði réttinda á réttan hátt“. Í viðtali við Dagbladet sama dag sagði hann deiluna „dapurlega“ og nauðsynlegt væri að ríkin ræddu saman.  Í ritstjórnargrein Dagbladet sagði að þótt Norðmenn gætu með nokkru öryggi gert tilkall til þess að beita valdi til að framfylgja kröfunni um að norsk yfirráð á Svalbarðasvæðinu væru virt vekti furðu hvernig málið hefði þróast. Eitthvað hlyti að hafa brugðist í samskiptum ríkjanna. Ef ekki væri hægt að jafna skiptar skoðanir um túlkun laga í viðræðum og samtölum milli ríkjanna væru fá deilumál í heiminum sem hægt væri að leysa á friðsamlegan hátt. Þá hefði verið sérstaklega óheppilegt að þessir atburðir skyldu gerast svo skömmu fyrir lýðveldisafmæli Íslendinga.

Enginn bilbugur á Íslendingum

Í aðalfréttatíma norska ríkisútvarpsins, NRK, 22. júlí, hélt Jón Baldvin Hannibalsson því fram að norsk stjórnvöld hefðu breytt um stefnu í hafréttarmálum vegna deilna við Ísland. Noregur væri nú orðinn „fundamentalisk kyststat“ í hafrétti. Þessum ummælum var svarað af norska sjávarútvegsráðuneytinu í Aftenposten daginn eftir. Tveim dögum síðar greindi Olsen sjávarútvegsráðherra frá því í viðtali við NRK að ekkert yrði aðhafst vegna veiðanna í Smugunni, en öðru máli gegndi um Svalbarðasvæðið. Unnið væri að lausn Smugudeilunnar með diplómatískum hætti og á vettvangi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um úthafsveiðar. Hann kvaðst harma veiðar íslensku skipanna í Smugunni, en taldi að góð aflabrögð þar væru líklega tímabundin.  Íslenskir og norskir embættismenn áttu með sér óformlegan fund í lok júlí 1994, en tilgangur fundarins, sem reyndist árangurslítill, var að skoða möguleika á formlegum embættismannafundum auk þess sem stjórn veiða á norsk-íslenskri síld var á dagskrá fundarins.

Gísli Svan Einarsson, útgerðarstjóri Skagfirðings, hélt því fram 30. júní að enginn bilbugur væri á íslenskum útgerðarmönnum. Ísfisktogarar Skagfirðings, Drangey og Hegranes, voru þá að búa sig til veiða í Smugunni og sagði Gísli Svan að reynt yrði að veiða við Bjarnarey á leiðinni ef skipin fengju til þess frið.  Þegar skipin komu í Smuguna reyndist þar „friður fyrir Norðmönnum“, en líka fyrir fiskinum, því veiðin var mjög dræm, a.m.k. fyrstu dagana.  Úr því rættist og 20. júlí héldu skipin heim fulllestuð, en þá voru átta íslensk skip á leið á veiðisvæðið. Þetta samrýmdist reynslu Færeyinga sem sögðu að veiðar í Smugunni glæddust um þetta leyti árs.  Strandgæslan fylgdist vel með veiðum skipanna, meðal annars vegna ágreinings sem var um mörk á milli Smugunnar og Svalbarðasvæðisins, en ekki kom til neinna aðgerða af hálfu hennar.

Birtist fyrst í Suðra. Smelltu hér til að lesa blaðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir

Dineout og Heimar umbreyta upplifun gesta í mathöllum – ein greiðsla, margir staðir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?