Karl Gauti Hjaltason, oddviti F listans í Suðurkjördæmi, skrifar:
Undirritaður hefur ákveðið að gefa kost á sér í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum, og skipa ég efsta sæti á lista Flokks fólksins í kjördæminu. Þar sem ég er nýr í pólitíkinni liggur beinast fyrir að kynna mig. Ég er lögfræðingur og hef verið formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis í nær 20 ár. Mörg ykkar kannast e.t.v. við mig þar sem ég hef víða unnið í kjördæminu, þannig starfaði ég í tæp 8 ár hjá sýslumannsembættinu hér á Selfossi, en lengst af var ég sýslumaður í Vestmannaeyjum og tel mig þekkja töluvert til um hvað helst mæðir á í kjördæminu og vil þar fyrst nefna samgöngur, ferðaþjónustu, sjúkraþjónustu og atvinnufyrirtækin.
Þannig brenn ég í skinninu til að fá að takast á við að sinna því sem þarf að færa til betri vegar. Ég er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til hagsbóta fyrir Sunnlendinga, kjördæmið í heild og allt landið, ef ég næ kjöri inn á alþingi okkar Íslendinga.
Ég tel að ýmislegt þurfi að bæta til þess að sjúkrahúsþjónusta fyrir íbúa víða úti á landi sé viðunandi og allt of mikið þurfi þar að sækja til Reykjavíkur, sjúkrahúsin úti á landi séu fjársvelt og sérfræðiþjónusta hafi dregist saman. Allt þetta veldur áhættu, óþægindum og kostnaði fyrir íbúana. Ég held að unnt sé að færa þar ýmislegt til betri vegar.
Samgöngumálin hafa batnað, en betur má ef duga skal. Fullklára þarf veginn yfir Hellisheiði og ljúka við veginn milli Hveragerðis og Selfoss ekki seinna en NÚNA. Það gengur ekki að horfa á eftir mannslífum á þessum vegarköflum sem eru með allra umferðarþyngstu þjóðvegum landsins.
Ferðaþjónustan er bjargvættur þjóðarinnar og þarf að tryggja að rekstrargrundvelli hennar sé ekki kollvarpað með misvitrum ákvörðunum. Sama má segja um aðbúnað í kringum ferðamannastaði, sem eru mörgum árum á eftir fjölda ferðamanna, og í raun umhverfismál að lagfæra. Löggæslumálin eru mér ofarlega í huga, þar sem ég hef lengst af starfað á þeim vettvangi.
Ég tel að fækkun lögreglumanna standi löggæslu fyrir þrifum víða um land og gefa þurfi duglega í til að auka almenna löggæslu. Flokkur fólksins er almennt með á stefnuskrá sinni að bæta kjör verkafólks, lífeyris- og öryrkja, því þeir hafa sannarlega ekki fengið sinn skerf að hagvexti umliðinna ára. Þetta hyggjumst við gera með því t.d. að hækka skattleysismörk stórlega. Við eigum að hafa efni á að veita öllum sómasamlegt lífviðurværi.