
Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá utanríkismálum til heilbrigðismála.
Í dag er spurt:
Mun flokkurinn beita sér fyrir breytingum í stjórnkerfinu? Ef svo, hvernig?
Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.
Björt framtíð – X-A
Björt framtíð var stofnuð til að breyta stjórnkerfinu, auka gagnsæi, setja skýrar reglur og fylgja þeim. Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfi að hluta til vegna þess að ekki var vilji til slíkra breytinga, heldur stóð til að halda áfram leyndarhyggju og sérhagsmunagæsku. Mörg kerfi samfélagsins þjóna ekki lengur hagsmunum heildarinnar. Sum þjóna sérhagsmunum. Önnur sjálfum sér vegna skorts á vilja og dug til að endurskipuleggja sig í þágu heildarinnar. Björt framtíð vill koma í veg fyrir að verðmætum sé deilt út til valinna fjölskyldumeðlima eða kunningja, eftir atvikum í skiptum fyrir vegleg framlög í kosningasjóði til þess eins að úrelt kerfi geti haldið áfram að viðhalda sjálfum sér í skjóli aðgerðarleysis. Björt framtíð vill leggja sitt af mörkum til þess að samtal geti átt sér stað milli ólíkra hagsmuna um það hvernig kerfin þjóni hagsmunum okkar allra sem best. Úrelt og gamaldags kerfi þarf að endurskipuleggja til að þau þjóni hagsmunum þeirra sem þurfa á þeim að halda.
Framsóknarflokkurinn – X-B
Framsókn telur að sífellt þurfi að endurskoða stjórnkerfið, ráðuneyti og stofnanir. Til að mynda með að setja á fót ráðuneyti ferðamála. Atvinnugreinin er sú stærsta á landinu og er orðin umfangsmikil í íslensku hagkerfi. Framsókn telur nauðsynlegt að á uppbyggingartímanum þurfi skýra pólitíska leiðsögn og faglega þekkingu. Skýr heildarstefna þarf að vera í málaflokknum sem taki tillit til umhverfis, -efnahags,- og samfélagslegra þátta. Þá vill Framsókna setja á fót byggðamálaráðuneyti, einskonar aðgerðahóp þvert á önnur ráðuneyti, til fjögurra ára, til að samhæfa aðgerðir sem tengjast landsbyggðinni. Markmiðið er að þjónusta ríkisins sé eins fyrir alla landsmenn óháð búsetu.
Mikilvægasta breytingin á stjórnarskránni er að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá
Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að taka mið af nýju auðlindaákvæði og skýrum ákvæðum um beint lýðræði og ekki verði opnað á framsal fullveldis. Framsóknarflokkurinn er hlynntur persónukjöri og vill auka vægi beins lýðræðis við ákvarðanatöku samfélagsins, meðal annars með lögfestingu reglna um þjóðarfrumkvæði.
Viðreisn –X-C
Viðreisn hefur markvisst beitt sér fyrir kerfisbreytingum, m.a. í landbúnaðar-, sjávarútvegs- og peningamálum, jafnframt því að auka gagnsæi í stjórnkerfinu.
Viðreisn mun vinna að breytingum á stjórnkerfi landbúnaðarmála, með hagsmuni neytenda, skattgreiðenda og umhverfis að leiðarljósi. Við leggjum áherslu á virka samkeppni, aukið frjálsræði og nýsköpun í matvælaframleiðslu.
Viðreisn mun vinna að breytingum á stjórnkerfi fiskveiða, með það að markmiði að þjóðin njóti sanngjarns arðs af sameiginlegri auðlind. Við leggjum til að aflaheimildum verði úthlutað til ákveðins tíma með uppboði. Þannig má stuðla að stöðugu rekstrarumvherfi fyrir greinina en jafnframt tryggja að gjöld fyrir afnot af auðlindinni séu í samræmi við markaðsverðmæti afla.
Viðreisn mun vinna að breytingum á peningamálastefnu, með það að markmiði að koma á gengisstöðugleika og varanlegri lækkun vaxta á Íslandi. Viðreisn hefur lagt til raunhæfar leiðir í þá veru: upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils (evru) eða myntfestu með tengingu íslensku krónunnar við stöðugri gjaldmiðla. Viðreisn leggur áherslu á markmið en ekki leiðir í þessu efni og er reiðubúin til samstarfs um raunhæfar leiðir.
Viðreisn mun vinna að auknu gagnsæi í stjórnsýslu og breyttri nálgun gagnvart upplýsingalögum. Við sýndum þennan vilja í verki á nýliðnu kjörtímabili með því að opna reikninga ríkisins. Sú almenna regla á að gilda að upplýsingar séu aðgenginlegar almenningi nema þung og gild rök séu til annars.
Píratar – X-P
Já, Píratar vilja stjórnkerfisbreytingar og líta á það sem eitt sitt helsta markmið.
Píratar vilja auka völd almennings. Tryggja frumkvæðis- og andmælarétt þjóðarinnar þannig að þing vinni eftir vilja almennings en ekki gegn honum. Aðgengi að upplýsingum er grunnur þess að almenningur geti tekið þátt í ákvarðanatöku og Píratar leggjast því gegn leyndarhyggju. Alþingi á að sinna eftirlitshlutverki sínu af meiri krafti og því þarf að tryggja að ráðherrar sitji ekki samhliða á þingi, auk þess sem afar mikilvægt er að ná sátt um nýja og skýrari stjórnarskrá byggða á vinnu stjórnlagaráðs.
Ný stjórnarskrá
Píratar leggja höfuðáherslu á að uppfæra stjórnkerfi Íslands með upptöku nýrrar stjórnarskrár byggða á vinnu stjórnlagaráðs. Það telja þeir hægt að gera með samráði við íslensku þjóðina sem er hinn endanlegi stjórnarskrárgjafi. Með slíkri breytingu yrði íslenskt samfélag lýðræðislegra, opnara og sanngjarnara, borgararéttindi yrðu vernduð með skýrum hætti. Eitt mikilvægasta skrefið sem fælist í upptöku nýrrar stjórnarskrár væri frumkvæðisrétturinn, þ.e. réttur Íslendinga til að kalla eftir umfjöllun mála inn á þingi með undirskriftum og getan til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um málefni sem brenna á fólki. Það myndi tryggja að það sem skiptir almenning máli kæmist í framkvæmd eða í það minnsta umræðu, og gjáin milli þings og þjóðar yrði brúuð. Fyrst og fremst myndi það veita stjórnmálamönnum nauðsynlegt aðhald.
Ný stjórnarskrá gerir einnig ábyrgðarsvið þings, ráðherra og forseta mun skýrara. Stjórnarskrá sem skrifuð er á nútímalegri íslensku tryggir að almennningur og stjórnmálamenn geti skilið leikreglurnar í samfélaginu. Í dag er hlutverk forseta óljóst og vald ráðherra mun meira en ábyrgðin sem þeir axla. Með því að aðskilja framkvæmdavald frá löggjafarvaldi þannig að þingmenn gegni ekki ráðherra embætti á sama tíma getur þingið betur sinnt eftirlitshlutverki sínu og löggjafinn yrði annað og meira en stimpill fyrir stjórnvaldsaðgerðir ríkisstjórna.
Ný stjórnarskrá tryggir öfluga upplýsingagjöf, verndar umhverfi og mannhelgi. Hún kveður á svo ekki verði um villst að allir eigi rétt á lífi með reisn, menntun og heilbrigðisþjónustu. Síðast en ekki síst tryggir hún að auðlindir sem eru sameign Íslendinga verði í þjóðareign og að arðurinn skuli renna til hennar. Öll þessi atriði eru grundvöllur að betra samfélagi með stöðugra stjórnskipulagi og meiri sátt.
Opnara Ísland
Píratar lögðu fram frumvarp í vor sem gerir fyrirtækjaskrá gjaldfrjálsa og fengu það samþykkt. Á síðustu árum hefur stjórnkerfið orðið mun gagnsærra, bókhald ríkisins og höfuðborgarinnar hefur verið opnað og Píratar hafa átt stóran þátt í að ýta þessum málum áfram. Við fögnum þessum framförum.
Núna viljum við opna nefndarfundi. Það sem ekki er sérstök ástæða til að loka ætti að jafnaði að vera opið og með opnum nefndarfundum gefst almenningi tækifæri til að skilja betur vinnuna sem liggur að baki löggjöfinni. Upplýsingar úr stjórnkerfinu eiga að vera aðgengilegar.
Alþýðufylkingin – X-R
Alþýðufylkingin styður að nýja stjórnarskráin taki gildi. Við mundum þó (auðvitað) vilja breyta ýmsu í henni. Og við teljum hvorki að gamla stjórnarskráin sé orsakarþáttur í hruninu né að sú nýja leysa þversagnir þjóðfélagsins — en við styðjum hana engu að síður.
Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands – X-S
Samfylkingin hefur frá upphafi beitt sér fyrir breytingum á stjórnskipan og stjórnsýslu – sem meðal annars geri stjórnfestu að höfuðviðmiði – skilvirka stjórnsýslu án mismununar og klíkuskapar, stjórnkerfi sem borgararnir geta treyst og reitt sig á.
Frá hruni hefur á Íslandi ríkt sundurlyndi milli samfélagshópa, stofnana í þjóðfélaginu, stjórnmálaflokka og einstaklinga. Vegna græðgi, óráðvendni og spillingar – og vegna þess að efnahagslegt öryggisnet hefur brugðist – hefur skortur á trausti einkennt ástandið í samfélaginu.
Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna, og samfélag þar sem menn geta ekki treyst grundvallarskipan og helstu samfélagsstofnunum er veikt samfélag.
Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Þeir mega ekki skýla sér á bak við lagatækni þegar koma þarf í veg fyrir ómannúðlega meðferð á börnum á flótta, veita á upplýsingar sem varða almannahagsmuni eða virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálamenn eiga ekki sjálfir að ráða leikreglunum sem þeir spila eftir.
Mikilvægasta stjórnkerfisbótin er samþykkt nýrrar stjórnarskrár þar sem samfélagsskipaninni yrði settur nýr grundvöllur sem nútímalegu lýðræðisríki, samskipti almennings við stjórnsýsluna skilgreind á forsendum stjórnfestu, og leikreglur stjórnmálanna endurbættar með áherslu á áhrif almennings og opinn aðgang að upplýsingum.
Þess vegna ætlar Samfylkingin vinna af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs sem afgerandi meirihluti lýsti stuðningi við í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Megininntak breytinganna er að styrkja lýðræði, jafnræði og velferð og þar með sjálfbærni á mörgum sviðum samfélagsins, og ekki síst að tryggja að arður af auðlindum þjóðarinnar renni í sameiginlega sjóði landsmanna.
Auk stjórnkerfisbreytinga leggjum áherslu á „fjórða valdið“ – fjölmiðlana – sem grundvallarþátt í samfélagi okkar og stjórnskipan. Við teljum að það sé skylda almannavaldsins að búa í haginn fyrir sjálfstæða og öfluga fjölmiðla, og teljum að Ríkisútvarpið eigi að vera þar í fararbroddi.
Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V
Lýðræðisumbætur og gagnsæi
Nýliðnir atburðir undirstrika mikilvægi þess að stjórnsýslan þjóni almenningi. Fela þarf embætti Umboðsmanns Alþingis að gera umbótaáætlun fyrir stjórnsýsluna og ráðast í kjölfarið í nauðsynlegar úrbætur. Efla þarf löggjafarhlutverk Alþingis, efla ráðuneytin og tryggja að stjórnsýslan sé gagnsæ og þjóni fólkinu.
Áhersla á mannréttindi í löggjöf
Tryggjum félagsleg, efnahagsleg og menningarleg mannréttindi, í samræmi við áherslur í nýrri stjórnarskrá, ekki síður en hin hefðbundnu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi og yfirförum alla löggjöf með hliðsjón af þeim. Þar er til dæmis átt við réttinn til menntunar, atvinnu og heilbrigðisþjónustu. Ekki síður er mikilvægt að innleiða svokölluð sameiginleg mannréttindi sem fela í sér réttinn til þróunar, friðar og heilsusamlegs umhverfis.
Ný stjórnarskrá
Ljúkum þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klárum nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs.
Öflugir fjölmiðlar
Stöndum vörð um sterka og sjálfstæða fjölmiðla. Lækkum virðisaukaskatt á fjölmiðla með það að markmiði að bæta rekstrarforsendur þeirra. Tryggjum faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og breiða aðkomu í stjórn þess. Setjum á laggirnar sjóð fyrir rannsóknablaðamennsku.
Sjá einnig: