fbpx
Föstudagur 10.júlí 2020
Eyjan

Áherslur flokkanna: Efnahags- og atvinnumál

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 12. október 2017 21:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá utanríkismálum til heilbrigðismála.

Í dag er spurt:

Hverjar eru áherslurnar í efnahags- og atvinnumálum?

Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.

Björt framtíð – X-A

Sköpum opið markaðs- og samkeppnisumhverfi á Íslandi.

Fátt stendur heilbrigðu atvinnulífi eins mikið fyrir þrifum og þegar yfirvöld gefa eftir gagnvart sérhagsmunagæslu, þar sem einni atvinnugrein er hampað á kostnað annarrar. Almennar, gagnsæjar leikreglur, stöðugur gjaldmiðill, lágt vaxtastig, góð tengsl við alþjóða viðskiptaumhverfið, fjölbreytni og virkt samkeppniseftirlit eru lykilatriði í að skapa opið og heilbrigt markaðs- og samkeppnisumhverfi á Íslandi.

Höldum áfram að byggja upp skapandi greinar, grænan iðnað, tækni- og hugverkageirann, ferðaþjónustu, rannsóknir og þróun, eins og Björt framtíð hefur haft frumkvæði að.

Hér dugar ekkert minna en gott heildarplan: Stofnum aðgerðahóp sem hefur heildarsýn á uppbygginguna. Látum aðra stefnumörkun hins opinbera, s.s. menntastefnu, virka þessu til stuðnings. Bætum hagtölugerð um þessar atvinnugreinar. Eflum samkeppnissjóði. Bætum skattaumhverfið. Svo fátt eitt sé nefnt. Margt smátt gerir eitt mjög stórt.

Bætum skilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja um land allt með hnitmiðuðum aðgerðum.

Hér eru ærin verkefni. Nefna má nokkur: Útrýmum launamisrétti kynjanna. Breytum lögum um mannanöfn. * Við leggjum til að við tileinkum okkur stefnu ESB sem ber yfirskriftina „Think small first“, en hún er í aðalatriðum þessi: Miðum breytingar á lögum og reglum við sérstöðu og þarfir lítilla fyrirtækja. Einföldum reglu- og lagaverk. Drögum úr samkeppni ríkisrekinna fyrirtækja við lítil fyrirtæki. Styttum greiðslufrest ríkis við birgja sína. Aukum aðgengi að fjárfestum og fjármögnun. Sköpum frekari hvata fyrir nýsköpun og rannsóknir. Komum á meiri samvinnu milli lítilla fyrirtækja og ríkisins.

 

Framsóknarflokkurinn – X-B

Efnahagsmál

Framsókn vill treysta umgjörð krónunnar

Það er mikilvægt að gengi krónunnar fái að þróast í samræmi við þarfir raunhagkerfisins. Framsókn vill að Seðlabankinn beiti þjóðhagsvarúðartækjum til að draga úr hættu á að spákaupmennska og vaxtamunaviðskipti hafi óæskileg áhrif á gengi krónunnar.

Framsókn vill endurmat á lífeyrissjóðakerfinu

Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna er um 10 milljarðar á ári og er of umfangsmikill. Eignirnar eru gríðarlegar í hlutfalli við landsframleiðslu og ekki víst að enn frekari uppsöfnun og iðgjaldahækkanir geti skilað sér að fullu til lífeyrisþega í framtíðinni. Framsókn vill kanna kosti þess að taka upp gegnumstreymiskerfi að hluta.

Skattamál

Framsókn vill einfalt og réttlátt skattaumhverfi

Skattbyrði einstaklinga, sem eru undir meðaltekjum, er þyngri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Framsókn vill endurskoða skattkerfið til að létta skattbyrði á lágtekjuhópa í samfélaginu, m.a. með breytingum á persónuafslætti.

Efla þarf skattaeftirlit til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og Ísland á að vera í fararbroddi þjóða í baráttunni gegn lágskattasvæðum sem nýtt eru af auðmönnum og stórfyrirtækjum til skattasniðgöngu.

Fjármögnun ríkisins

Framsókn vill að bankarnir greiði 40 milljarða arð í ríkissjóð

Eigið fé bankanna er hátt og töluvert umfram þau mörk sem lög gera ráð fyrir. Framsókn vill að bankarnir nýti strax það svigrúm sem þeir hafa til að greiða arð í ríkissjóð en sú fjárhæð gæti numið um 40 milljörðum sem myndi nýtast til að lækka skuldir ríkisins.

Viðskipta- og neytendamál

Framsóknarflokkurinn vill að einn af stóru bönkunum verði samfélagsbanki að þýskri fyrirmynd

Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði telur Framsókn nauðsynlegt að ríkið eigi einn af stóru bönkunum og setji honum þá stefnu að efla samkeppni í bankaþjónustu, neytendum og atvinnulífi til hagsbóta.

Framsókn vill stuðla að því að raunvextir á Íslandi lækki

Með aðgerðum varðandi verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn sé tekinn út úr vísitölunni munu vextir lækka. Framsókn vill samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt sé að stuðla að lækkun vaxta t.a.m. við kjarasamningsgerð.

Framsókn vill aukið lýðræði við val á stjórnum lífeyrissjóða og aukið aðhald í rekstri þeirra

Framsókn telur mikilvægt að eigendur lífeyrisréttinda fái að velja að minnsta kosti þriðjung stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Einstaklingar skulu einnig hafa frelsi um hvar lögbundinn lífeyrissparnaður þeirra er ávaxtaður. Með því verður virkari samkeppni milli vörsluaðila lífeyrissparnaðar og minni hætta á hagsmunatengslum.

Framsókn vill að Seðlabankinn bjóði upp á innlánsreikninga

Seðlabankar víða um heim skoða nú möguleikann á því að bjóða almenningi upp á innlánsreikninga án færslukostnaðar. Framsókn vill að almenningur og fyrirtæki fái að geyma reiðufé á innlánsreikningum í Seðlabankanum sem hægt er að nota til að greiða fyrir vörur og þjónustu án færslukostnaðar. Með þessu myndu vaxtaberandi innistæður bankanna í Seðlabankanum lækka. Afkoma heimilanna, Seðlabankans og ríkisins mun batna.

 

Viðreisn – X-C

 

Stöðugleiki og ábyrg hagstjórn byggð á langtímamarkmiðum

Stjórn efnahagsmála hafi stöðugleika að meginmarkmiði, byggi á varúðasjónarmiðum og leggi grunn að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma. Áhersla skal lögð á stöðugt gengi, heildstæða og vandaða áætlanagerð hins opinbera, markvissa opinbera fjárstjórn sem styður stöðugt gengi og verðlag, skilvirka starfsemi, ásamt virku eftirliti með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda.

Stöðugt gengi tryggt með myntráði

Tekið verði upp myntráð í stað núverandi peningastefnu, hliðstætt því sem tíðkast í fjölmörgum smærri ríkjum. Upptaka myntráðs mun skapa varanlegan gengisstöðugleika, draga verulega úr vaxtamun við útlönd og skapa forsendur langvarandi verðstöðugleika, til hagsbóta fyrir almenning jafnt sem atvinnulíf.

Myntráð krefst öflugrar og traustrar hagstjórnar

Samstillt hagstjórn, með öguðum ríkisfjármálum og bættum vinnubrögðum á vinnumarkaði, er forsenda góðs árangurs á þessu sviði. Með myntráði sem stutt er agaðri stjórn fjármála hins opinbera er lagður grunnur að lágri verðbólgu, hóflegu vaxtastigi og auknum fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja og einstaklinga. Þannig er jafnframt lagður grunnur að bættri samkeppnisstöðu þjóðarinnar, aukinni framleiðni og almenningi tryggð kaupmáttaraukning til framtíðar.

Ísland sé virkur þátttakandi í alþjóðavæðingu

Aðild Íslands að erlendum mörkuðum og þátttaka í alþjóðavæðingu, m.a. innri markaði ESB/EES, hefur styrkt samkeppnishæfni þjóðarinnar. Útflutningur hefur aukist, sem og verðmætasköpun og framfarir á fjölmörgum sviðum. Viðreisn telur að vestræn samvinna sé hornsteinn að þjóðaröryggi, viðskiptafrelsi og bættum lífskjörum Íslendinga.

Aukin framleiðni er forsenda varanlegrar kaupmáttaraukningar

Markviss efnahagsstjórn, einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi, öflug samkeppni, stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru lykilforsendur fyrir efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni og varanlegri aukningu kaupmáttar.

Framleiðni á Íslandi er mun lægri en í nágrannalöndum okkar. Þá hefur hagvöxtur á Íslandi um árabil byggst á lengri vinnutíma en þekkist annars staðar. Ástæður lágrar framleiðni eru margþættar, en stafa m.a. af fámenni, litlum heimamarkaði, fákeppni, íþyngjandi reglum á viðskiptalíf, óskilvirkri auðlindastjórnun, skorti á samkeppni og sérmenntuðu vinnuafli ásamt óhagkvæmni í rekstri hins opinbera. Allt þetta gerir uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs erfiða, sem hefur orsakað flutning arðvænlegra fyrirtækja úr landi.

Lækkun vaxta – stærsta húsnæðismálið

Varanleg lækkun vaxta á húsnæðislánum til lengri tíma er stærsta hagsmunamál kaupenda og leigjenda húsnæðis. Myntráð er sú leið sem best tryggir varanlegan stöðugleika í gengismálum meðan við höfum krónuna sem gjaldmiðil.

Taka þarf sérstaklega á erfiðri aðstöðu kaupenda fyrstu íbúðar. Þeim verði m.a. gert heimilt að stofna skattfrjálsa sparnaðarreikninga í aðdraganda íbúðarkaupa. Þá þarf að tryggja að áfram verði hægt að ráðstafa séreignarsparnaði til íbúðakaupa í ákveðinn árafjölda.

Endurskoða þarf vaxtabótakerfið þannig að það styðji betur við fyrstu íbúðakaup, t.d. með því að stuðningur við kaupendur fyrstu eignar verði í formi eingreiðslu. Jafnframt þarf að auka framboð húsnæðis og draga úr byggingakostnaði, m.a. með endurskoðun byggingareglugerða.

Sjálfbær nýting auðlinda og markaðsgjald
Greitt verði markaðsgjald fyrir sérréttindi til nýtingar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, bæði endurnýjanlegum og óendurnýjanlegum.

Tekið verði upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi, greitt markaðsverð fyrir nýtingu orkuauðlinda og tekið upp afgjald í ferðaþjónustu til að stuðla að ábyrgri aðgangsstýringu og dreifingu ferðamanna, uppbyggingu og skipulagi innviða og vernd náttúru landsins. Afgjaldi verði varið til uppbyggingar innviða.

Rekstur hins opinbera sé skilvirkur og byggi á langtímaáætlunum

Leggja þarf kapp á vandaða áætlanagerð og markvissa stjórn fjármála hins opinbera, bæði hvað varðar þróun útgjalda og tekna, með það að markmiði að halda skuldum niðri, tryggja forgangsröðun og stuðla að agaðri stjórn til lengri tíma. Innleidd verði regla um hámarksaukningu ríkisútgjalda á ári. Ákvarðanir um útdeilingu fjár byggi á aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar.

Skattkerfið verði endurskoðað með það að markmiði að auka skilvirkni þess, fækka undanþágum og íþyngjandi reglum og auðvelda einstaklingum og smáum sem stórum fyrirtækjum að fara að reglum.

Stofnanakerfi ríkisins verði endurskoðað og rekstur þess gerður skilvirkari og hagkvæmari. Stofnanir með eðlislík verkefni verði sameinaðar og lagafyrirmæli sett m.a. um stærð stofnana, stofnun þeirra, starfsemi og niðurlagningu. Tryggja þarf áframhaldandi hagræðingu í innkaupum ríkisins með því að nýta stærðarhagkvæmni ríkisins. Sett verði skýr markmið um árlega hagræðingu við innkaup.

Beitt verði markaðslausnum við þjónustu við borgarana

Ríkið á að draga sig út úr samkeppnisrekstri eða gefa einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að auka samkeppni og ná fram hagræðingu. Markmiðið á alltaf að vara að tryggja góða þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði.

Tryggt verði að þær eignir, sem lagðar hafa verið til ríkisins sem hluti stöðugleikaframlags fjármálafyrirtækja, verði seldar í gegnsæju og vönduðu ferli og söluandvirðið nýtt til lækkunar skulda ríkissjóðs með hag almennings í forgrunni. Spornað verði gegn  samþjöppun eignarhalds og samkeppni tryggð.

Sérstök áhersla verði lögð á að ná fram hagræðingu í bankakerfinu. Stuðlað verði að aukinni samkeppni með sölu innlends banka til alþjóðlegra fjármálastofnana í tengslum við upptöku myntráðs.

Horfst verði í augu við skuldavanda Íbúðalánasjóðs og hlutverk hans endurskoðað eða gert markvissara.

Kjarasamningar hins opinbera verði einfaldaðir og samræmdir eins og kostur er að reglum hins almenna vinnumarkaðar.

Heilbrigt rekstrarumhverfi styður allar greinar

Fyrirtæki, stór og smá, í almennum iðnaði, verslun og þjónustu eru mikilvæg fyrir samfélagið. Verk- og tæknimenntun þarf að mæta þörfum iðnaðarins og þess vegna verður að finna leiðir til þess að ungt fólk sæki sér þessa menntun. Sama gildir um fólk með sérhæfða menntun á sviði ferðaþjónustu. Fyrst og fremst þurfa þó fyrirtækin stöðugleika í efnahagslegri umgjörð og einföldun regluverks eins og allur annar rekstur.

 

Sjálfstæðisflokkurinn – X-D

 

Efnahags- og viðskiptamál

 • Þjóðarsjóður í þágu kynslóðanna
 • Bætum 100 milljörðum við í innviðauppbyggingu
 • Stöðugleiki tryggður áfram og verðbólgu haldið niðri
 • Peningastefnan endurskoðuð
 • Sveigjanleiki í lífeyriskerfið
 • Öflugt samkeppnisumhverfi
 • Almenningsvæðing bankanna

Sjálfstæðisflokkurinn mun viðhalda þeim stöðugleika í efnahagsmálum sem tekist hefur að koma á. Mikilvægur þáttur í því verður að halda verðbólgunni niðri.

Við viljum setja arðinn af orkuauðlindum landsins í Þjóðarsjóð. Í sjóð þennan renni arður af orkuauðlindum í eigu ríkis. Sjóðurinn á að vera sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið, aftra ofhitnun er vel árar og tryggja komandi kynslóðum hlutdeild í arði af sameiginlegum auðlindum. Hluti sjóðsins verður nýttur í aðkallandi samfélagsverkefni.

Bankarnir hafa bolmagn til að greiða ríkinu allt að 100 milljarða í sérstakar arðgreiðslur á næstu árum. Við viljum nýta fjármagnið, til viðbótar við áðuráætlaðar framkvæmdir, í nauðsynlegar innviðafjárfestingar til að bæta vegina, og styrkja samgöngur um allt land, en einnig aðra innviði svo sem í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu.

Hafin er endurskoðun á peningastefnunni. Peningastefnan á að styðja betur við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika til langs tíma.

Mikilvægt er að ríkisfjármál, peningastefna og kjarasamningar spili saman til að takast megi að draga úr vaxtamun milli Íslands og helstu viðskiptalanda. Mestu skiptir að halda stöðugu verðlagi og lágmarka vaxtakostnað heimila og fyrirtækja. Til framtíðar þurfa lánakjör hér að vera í samræmi við það sem við þekkjum frá nágrannalöndum okkar.

Leita þarf allra leiða til að tryggja öfluga samkeppni á öllum sviðum íslensks atvinnulífs, þar með talið í fjármála-, heilbrigðis- og menntakerfinu. Bæta skal samkeppnisumhverfi fyrirtækja með hagsmuni almennings að leiðarljósi ásamt því að tryggja öfluga og skilvirka neytendavernd.

Sjálfstæðisflokkurinn vill almenningsvæða banka. Rétt er að almenningur fái álitlegan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur, samhliða skráningu bankanna á markað.

Atvinnuvegamál

 • Fjölbreytni, framtak og sjálfbærni í atvinnulífi; forsenda framfara, undirstaða velferðar
 • Aðlaðandi atvinnuumhverfi fyrir fólk og fyrirtæki er fjölskyldustefna til framtíðar
 • Efling sprotaumhverfis og nýsköpunar
 • Stöðugleika í sjávarútvegi og markaðsvæðing landbúnaðar
 • Náttúruvæna og hagkvæma auðlindanýtingu

Sjálfstæðisflokkurinn vill að á Íslandi þrífist fjölbreytt og alþjóðlegt atvinnulíf, þar sem atvinnuvegirnir styðja hverjir aðra og stuðla að blómlegu þjóðlífi. Sjálfbær atvinnustefna er fjölskyldustefna til framtíðar, en öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðar.

Við viljum auka nýsköpun, framleiðni og hagvöxt með ábyrgum og varanlegum hætti, svo að Ísland sé aðlaðandi fyrir fólk sem fyrirtæki. Sjálfstæðisflokkurinn leggur sérstaka áherslu á nýsköpun í atvinnulífinu, sprotastarfsemi og fjölbreytni til þess að nýta betur mannauðinn. Eins eru hreinleiki og heilnæmi íslenskrar náttúru og afurða hennar grunnur frekari sóknar á margvíslegum sviðum atvinnulífsins.

Skapandi greinar eru vaxandi og gróskumikill hluti atvinnulífsins sem þarf að samþætta öðrum greinum til að auka nýsköpun, fjölbreytileika og styrk íslensks atvinnu- og menningarlífs. Sjálfstæðisflokkurinn lítur á hugverk, nýsköpun og listir sem sífellt mikilvægari og vaxandi atvinnugreinar sem ber að efla.

Íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð á heimsvísu, jafnt hvað varðar gæði, sjálfbærni, þróun og arðsemi. Við viljum tryggja stöðugleika í sjávarútvegi svo hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun og lagt drjúgan og sanngjarnan skerf af mörkum til lífsgæða landsmanna.

Við viljum nýta svigrúmið sem landbúnaðinum hefur verið gefið og leggja drög að nýjum og fjölbreyttari búskaparháttum á grundvelli einkaframtaks og frjálsra markaðshátta og samkeppni milli landa sem innanlands. Við viljum að l andbúnaðar- og byggðastefna styðji við náttúruvernd og taki mið af sögu og menningu þjóðarinnar. Tilgangurinn er að samþætta hagsmuni þéttbýlis og
dreifbýlis og skapa tækifæri um allt land þannig að ungt fólk hafi raunverulegt valfrelsi um að velja sér búsetu.

Verslun og þjónusta þarf að búa við samkeppnishæft umhverfi líkt og aðrar greinar, en niðurfelling ríkisstjórnarinnar á tollum og vörugjöldum hefur gert verslunina lífvænlega og bætt kjör neytenda verulega. Við viljum ganga enn lengra í átt til fríverslunar í þeim efnum.

Sjálfstæðisflokkurinn styður atvinnuuppbyggingu með sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda, en virðing fyrir náttúrunni er ófrávíkjanlegt skilyrði. Í því skyni er brýnt að bæta raforkuflutningskerfi landsins. Við þurfum að nýta samkeppnisforskot það sem felst í vistvænni orku og leggja okkar af mörkum í þágu alþjóðlegs orkubúskapar og aðgerða í loftslagsmálum.

 

Flokkur fólksins X-F

Fjármálastjórn
Uppstokkun verði í fjármálakerfi landsins þar sem hagur neytanda og lántakenda sé í fyrirrúmi. Verðtrygging verði afnumin af neytendalánum og fasteignalánum og vextir lækkaðir þannig að þeir verði ekki hærri en best þekkist í nágrannalöndunum. Aftengd verði leiga og verð húsnæðis úr vísitölumælingu Hagstofunnar. Flokkurinn vill aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabanka ásamt því að samfélagsbanki verði stofnaður.

Láglaunafólk
Flokkur fólksins vill tryggja að 300 þúsund króna mánaðarlaun verði ekki skattlögð, en tekjur umfram það, verði skattlagðar í þremur þrepum þar sem
persónuafsláttur fer stiglækkandi eftir því sem launin verða hærri og fellur að lokum niður við 1.5 millj. kr. mánaðargreiðslu.

 

Miðflokkurinn – X-M

 

Miðflokkurinn hefur kynnt áætlun sína sem við köllum 5+1, sem skiptist í fimm eftirtalda málaflokka: 1. Fjármálakerfið, 2. Atvinnulíf og nýsköpun, 3. Menntun og vísindi, 4. Heilbrigðiskerfið og 5. Réttindi eldri borgara. Þessi til viðbótar er svo heildstæð áætlun sem ber yfirskriftina „Ísland allt“ um það hvernig við ætlum að láta landið okkar virka allt saman sem eina heild. Áætlunin snýst um það hvernig við ætlum að umbylta, breyta, endurnýja og endurskapa fjármálakerfið þannig að það fari að virka fyrir almenning í landinu og fyrirtækin, þá sem eiga að geta nýtt sér þjónustu þess til að eignast heimili, bæta kjör sín og byggja upp. Markmiðið er að ná eðlilegu vaxtastigi, viðhalda stöðugleika og banna verðtryggingu á nýjum neytendalánum. Búa til kerfi sem þjónar almenningi, betri húsnæðismarkað, fleiri og betri störf, aukna nýsköpun og verðmætasköpun. Allt tengist þetta saman t.d. atvinnulíf, nýsköpun og húsnæðismálin tengist fjármálakerfinu og þá ekki síst vaxtastiginu. Við þurfum við að nýta fjármagnið betur í stað þess að auka skatta, finna nýjar leiðir, eins og t.d. það fjármagn sem lagt er í heilbrigðiskerfið og menntamálin í stað þess að eina leiðin sé alltaf að hækka fjárframlögin.

Fjármálakerfið

Markmiðin eru þessi í grófum dráttum að á Íslandi verði loksins hægt að viðhalda eðlilegu vaxtastigi sem gerir fólki kleift að eignast heimili hraðar en áður, gerir fyrirtækjunum kleift að fjárfesta, skapa ný störf, skapa nýjar hugmyndir. Kerfi sem þjónar almenningi, þar með betri húsnæðismarkaður, fleiri og betri störf, aukin nýsköpun og meiri verðmætasköpun.

Markmiðið er að losna við verðtrygginguna og komast út úr þessu verðtryggða umhverfi. Við ætlum að banna verðtryggingu á nýjum neytendalánum. Ýmis rök eru fyrir því svo sem neytendaverð, hagstjórnin virki betur en fyrst og fremst er þetta spurning um heildarmarkmiðið um endurskipulagningu fjármálakerfisins þannig að það skili Íslandi í lágvaxtaumhverfi úr hávaxtaumhverfi. Til að það sé hægt, þ.e. að lækka vaxtastig og banna verðtryggingu á nýjum neytendalánum, svo menn sitji ekki upp með óverðtryggð lán á himinháum vöxtum þarf að gera ýmsa breytingar.

Ríkið þarf að nýta sér forkaupsrétt sinn að Arionbanka. Þegar stóru bankarnir þrír eru komnir í ríkiseigu er hægt að minnka bankakerfið með því að greiða út úr þeim verulegt umfram eigið fé. Meðan svona mikið umfram eigið fé er inni í bönkunum þá er krafa um ávöxtun á allt þetta eigið fé og einhvern veginn verða bankarnir að ná þeirra ávöxtun sem er gert með hærri vöxtum, þjónustugjöldum o.s.frv. Við þurfum að minnka bankana með því að greiða úr þeim umfram eigið fé í ríkissjóð sem hægt er að nýta t.d. í innviðauppbyggingu.  Í nýrri greiningu Danske Bank kemur fram að eigið fé ís­lensku bank­anna sé mun ríflegra en hjá öðrum nor­ræn­um bönk­um. Samkvæmt útreikningum Morgunblaðsins 17. október 2017 kemur fram að viðskipta­bank­arn­ir séu í stakk bún­ir til þess að greiða allt að 240 millj­arða króna í arð til eig­enda í því skyni að eig­in­fjár­hlut­fall þeirra verði með svipuðu sniði og ann­ars staðar á Norðurlönd­um.

Miðflokkurinn vill að Landsbankinn verði áfram í eigu ríkisins og mótuð verði eigendastefna í stað „seljendastefnu“ þannig að ríkið ákveði hvernig það vilji að þessi banki starfi . Landsbankinn stofni dótturfélag, nýjan banka, sem bjóði upp á lægri vexti og auki þar með samkeppni og leiði íslenska fjármálakerfið inn í breyttan heim. Þessi nýi banki yrði eingöngu á netinu með lágmarks yfirbyggingu og rekstrarkostnað. Nýtir nýjustu tækni og þróun í bankastarfsemi. Taki litla áhættu en hefur það að meginmarkmiði að bjóða viðskiptavinum sem best kjör með lágmarks vaxtamun. Veiti aðeins minni lán, t.d. lán til einstaklinga vegna húsnæðiskaupa og til smærri fyrirsækja með traust veð. Leiði saman lánveitendur sem sækjast eftir hóflegri en öruggri ávöxtun og lántaka með örugg veð á borð við fasteignir. Bjóða sem best kjör á sem bestu vöxtum.

Miðflokkurinn vill að þriðjungur Arionbanka verði afhentur  öllum Íslendingum til jafns, þannig að hver og einn sem er lifandi á tímabilinu frá 1. desember 2018 til 1. desember 2019 eignast eitt hlutabréf í bankanum. Nauðsynlegt er að staðfesta móttöku hlutabréfsins og ekki verði heimilt að selja bréf fyrr en í fyrsta lagi eftir 3 ár. Þriðjungur seldur í opnu útboði, auglýst verði eftir fyrirtækjum til að annast söluna í alþjóðlegu útboði. Ríkið haldi ráðandi hlut í bankanum þar til það selur síðasta þriðjunginn eftir að reynsla er komin á fyrri söluna og markaður hefur myndast með hlutabréf í bankanum.

Miðflokkurinn vill að vinna hefjist strax við að selja Íslandsbanka erlendum banka. Það þarf að vera skýr langtímasýn og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi. Íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir sölunni með skipulögðum og virkum hætti. Stjórnvöld og fjármálaeftirlitið setja skilyrði fyrir sölunni og meðal skilyrða væri bankinn myndi veita tiltekna þjónustu á Íslandi í að minnsta kosti 10 ár.

Miðflokkurinn vill ný lög um Seðlabanka Íslands. Hlutverk bankans verði útvíkkað og bankinn fái það hlutverk að stuðla að aukinni samkeppni á bankamarkaði, eins og þekkt er meðal annars hjá Seðlabanka Englands og að peningastefna bankans verði endurskoðuð. Vextir eru of háir og leiða til hættulegs innflæðis. Of þröngt að huga aðeins að vísitölu verðlags. Nauðsynlegt að taka mið af vaxtamun miðað við útlönd. Án verðtryggingar hefur hagstjórnin meiri áhrif.

Miðflokkurinn vill varðandi Íbúðalánasjóð að áfram verði unnið út frá breytingum síðustu ára og yfirfærslu í félagslegt hlutverk. Sjóðurinn veiti óverðtryggð lán.

Lífeyrissjóðirnir hafa stækkað mikið og þeir þurfa að laga sig að nýju lágvaxtaumhverfi og geta ekki reitt sig á 3,5% ávöxtun ofan á verðtryggingu fjármagnað af skattgreiðendum og fólki sem er að reyna skapa sér heimili.

Lífeyrissjóðirnir þurfa að finna nýjar leiðir, fjárfesta í nýsköpun, skapa ný verðmæti og þurfa að fjárfest miklu meira erlendis. Það þarf meiri áhættudreifingu, þeir eru orðnir of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf.

Ef við tökum samanburð við norska olíusjóðinn fjárfestir utan Noregs og átti á árinu 2014  1,3% af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum og 2,5% í Evrópu þá er hlutfall hans af landsframleiðslu Noregs svipað og hlutfall íslensku lífeyrissjóðanna af landsframleiðslu Íslands. Meðal raunávöxtun norska olíusjóðsins síðastliðin 20 ár tæp 4%. Innan við helmingur innstreymis hans er frá sölu olíu og gass, meirihluti gengisbreytingar og vextir. Með þessu er verið að dreifa áhættunni fyrir landsmenn og norska ríkið. Þessar breytingar á íslenska fjármálakerfinu munu reka þá út í hinn stóra heim, dreifa áhættunni út um allan heim fyrir landsmenn og landið. Við náum meiri jafnvægi fyrir gjaldmiðilinn sem um leið vinnur gegn sveiflum íslensks efnahagslífs í stað þess að auka þær.

Ef þeir koma ekki út öllu þessu fjármagni hratt er sá möguleiki fyrir hendi að skattleggja innstreymið en ekki útstreymið. Skattlagning sparnaðar við inngreiðslu í lífeyrissjóði, fjárfestingaþörfin minnkar. Gerir okkur kleift að greiða ríkisskuldir hraðar og felur þannig í sér ábata fyrir framtíðarkynslóðir.

Þessar breytingar munu breyta öllum efnahafslegum forsendum fyrir okkur. Þetta er heildaráætlun sem tekur á ólíkum þáttum fjármálakerfisins, allt á að spila saman. Mun taka nokkur ár í framkvæmd en byrjar strax að hafa jákvæð áhrif á vaxtastigið að þrýsta það niður.

 

Píratar – X-P

 

Efnahagsmál

Meginmarkmið hagkerfisins

Til að vinna að hagsmunum almennings skulu ábyrgð, stöðugleiki, sjálfbærni og langtímamarkmið vera skýr í öllum efnahagsmálum.

Grunngildi heilbrigðs hagkerfis

Jafnræði, frjáls samkeppni og nýsköpun eru mikilvægir eiginleikar heilbrigðs hagkerfis og skulu hafðir sem viðmið í lagasetningu um efnahagsmál og í opinberum rekstri.

Gegnsæi

Fjármál hins opinbera skulu vera opin, tölvutæk, gagnsæ og sundurliðuð, og eignarhald lögaðila skal vera opið og rekjanlegt. Afurðir sem tengjast verkefnum fjármögnuðum af opinberu fé skulu almennt vera í almannaeigu og þar með opin og aðgengileg öllum.

Hlutverk hins opinbera

Helsta efnahagslega ábyrgð hins opinbera er að tryggja rekstur grunnstoða samfélagins og eftirlit með hagkerfinu.

Rekstrarform

Efla þarf fleiri rekstrartegundir í lögum. Vinna þarf markvisst að þvi að staðla og styðja mismundandi rekstrartegundir með því að leggja sérstaka áherslu á hvar ábyrgð liggur.

Valdefling sveitafélaga

Tryggja þarf aðkomu sveitarfélaga í allri ákvarðanatöku í efnahagsmálum sem þau varða.

Atvinnumál

Lægri skattar á tekjur og lífeyri

Það er eðlilegt og sanngjarnt að færa skattbyrðina frá þeim sem minnst hafa og yfir á þá sem hafa meira. Það þýðir lægri skatta á vinnu fólks og lífeyri en hærri á fjármagn.

1. Tekjuskattur verður lækkaður með hærri persónuafslætti.
2. Fjármagnstekjur verða færðar nær launatekjum í skatthlutfalli.
3. Skattaeftirlit verður stórelft, fyllt verður í holur í skattkerfinu og kennitöluflakki gert gegnsætt.

Tækni- og skapandi greinar

Internetið og önnur upplýsingatækni er grunnþáttur hagvaxtar sem þarf að virkja markvist til að auka fjárfestingu, styrkja fyrirtæki og skapa störf. Ísland getur skapað sér sérstöðu sem svo þegar fyrirtæki og fólk um allan heim tekur ákvarðanir í netmálum þá leiti það af þjónustu á Íslandi.

Orkumál

Stuðla skal að sjálfbærni í orkunotkun og sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda. Landsmenn og lögaðilar eiga að hafa aðgang að ódýrri vistvænni orku og vera sem minnst háðir orkuinnflutningi. Til að tryggja að þjóðin njóti arðs af orkuauðlindum skal innheimta arð af nýtingu þeirra t.d. með útgáfu orkunýtingarleyfa, sem orkuflutningsgjöld, sem tekjuskatta vegna orkusölu eða með öðrum hætti.

Móta skal langtímaáætlun til 20 ára um orkuframleiðslu og orkunýtingu sem endurskoðuð er og uppfærð á 4 ára fresti. Stuðla skal að tækni- og vísindastefnu sem ýtir undir framþróun og rannsóknir nýrra endurnýjanlegra og vistvænna orkuauðlinda ásamt tækni til bætrar orkunýtingar. Einnig þarf að efla rannsóknarsjóði og vísindastarf til að tryggja framþróun á sviði orkumála. Stuðla skal að gagnsæi og jafnræði í orkumálum.

 

Alþýðufylkingin  – X-R

 

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir því að þróa fjölbreytilega atvinnuvegi í landinu. Öruggt framboð fæðu og annarra nauðsynja verði að leiðarljósi, aukinn jöfnuður og bætt lífskjör almennings. Félagslegu framtaki verði beitt þar sem það þjónar grunnmarkmiðunum en þó getur einkarekstur átt rétt á sér í verðmætaskapandi framleiðslu og þjónustu sem ekki flokkast undir innviði samfélagsins. Markmið atvinnuveganna á ekki að vera að þenjast endalaust út til að auka gróða og ójöfnuð, heldur að uppfylla þarfir samfélagsins og skapa útflutningstekjur til að standa straum af innflutningi á vörum og þjónustu til landsins.

Alþýðufylkingin beitir sér gegn fjármagnsinnflutningi til landsins, bæði í formi lánsfjár og fjárfestinga, nema nauðsyn beri til af tæknilegum ástæðum og í undantekningartilvikum. Skilyrði fyrir fjárfestingu í íslensku atvinnulífi ætti að vera búseta í landinu og að viðkomandi sé hluti af því samfélagi sem starfsemin er í. Atvinnuvegirnir eiga að stuðla að búsetu um allt land með skynsamlegri nýtingu lands og annarra auðlinda og stuðla að jöfnum kjörum óháð búsetu.

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir því að skattlagning þróist í þá átt að léttast af tekjum almennings og færast í auknum mæli yfir á hagnað fyrirtækja, enda muni þau á móti hagnast á því að oki fjármálafyrirtækja og svokallaðra fagfjárfesta verði létt af þeim.

 

Samfylkingin – X-S

 

Atvinnumál

Það er eitt af grundvallarsjónarmið Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða. Atvinnutækifæri þurfa að vera fjölbreytt og vinnustaðir öruggir fyrir þá sem þar starfa. Girða þarf fyrir félagsleg undirboð og tryggja að réttindi og laun allra sem vinna hér á landi séu í samræmi við kjarasamninga og lög.

Fjölga þarf vellaunuðum störfum hér á landi og auka fjölbreytni þeirra um allt land. Til þess að byggja atvinnulífið í enn frekara mæli á hugviti, listum og nýsköpun. Sú þróun er líka nauðsynleg til þess að bregðast við þeirri öru þróun í tækni sem nú á sér stað um heim allan og er að gjörbreyta þeim störfum sem mannshöndin og -hugur kemur að. Ísland á að vera í í forystu á heimsvísu í að mæta þeim áskorunum sem eru framundan. Lykilatriði í þeim undirbúningi er sókn í skólakerfinu sem gerir Íslendingum kleift að vera virkir þátttakendur í þeirri framþróun sem verður á næstu árum. Finna þarf nýjar leiðir til þess að tryggja öllum störf við hæfi og mannsæmandi líf. Afleiðing tæknibyltingar má aldrei verða aukinn ójöfnuður og fátækt.

Þannig tryggjum við að ungt fólk sjái sér framtíð hér á landi og að samkeppnishæfni Íslands verði í fremstu röð. Besta leiðin til þess að tryggja stöðugleika, lækka vexti og auka erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi er upptaka evru í kjölfarið á aðild að Evrópusambandinu.

Samfylkingin leggur áherslu á:

 • að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.
 • stórsókn í skólakerfinu og efling rannsókna og nýsköpunar til þess að mæta tækniframförum og breytingum á vinnumarkaði.
 • lækkun tryggingargjalds sem leggst ofan á launagreiðslur fyrirtækja og þ.a.l. þyngst á fyrirtæki með háan launakostnað.
 • að auka fjárfestingu í fyrirtækjum í nýjum og vaxandi atvinnugreinum með því að veita almenningi skattafrádrátt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
 • jafnrétti til náms og að fólk á öllum aldri njóti raunverulegra tækifæra til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, m.a. með greiðum aðgengi að námi án aldurstakmarka.
 • að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og mansal með öflugu eftirliti í samstarfi við verkalýðsfélög og með því að móta og setja í framkvæmd markvissa vinnu gegn mansali.
 • að Iögleiða keðjuábyrgð á verktakamarkaði

 

Við þurfum að nýta arð af auðlindum landsins í þágu fólks og atvinnulífs um land allt. Nýting auðlindaarðsins til uppbyggingar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar er lykill að farsælli byggðastefnu. Byggja þarf upp atvinnulíf og samgöngur út um allt land. Leggja þarf enn meiri áherslu á  sóknaráætlanir landshluta þar sem heimamenn forgangsraða fjárfestingu og uppbyggingu í heimabyggð. Auk þess þarf hið opinbera að bjóða störf án staðsetningar setja á á fót stjórnsýslustarfsstöðvar í stærri sveitarfélögum þar sem starfsfólk mismunandi stjórnsýslustofnana getur starfað.

Virk jafnréttisstefna og löggjöf um jafna stöðu kynja er nauðsynleg til að tryggja að atvinnulífið fái notið reynslu, hæfileika og þekkingu allra óháð kyni þeirra. Ríkið verður að stíga kröftug skref til þess að útrýma kynbundnum launamun. Íslenskt atvinnulíf þarf að hafa aðgang að menntuðu og sérhæfðu starfsfólki, bæði innlendu og erlendu og gera þannig íslensk fyrirtæki samkeppnishæf um mannauð í alþjóðlegu samhengi.

Efnahagsmál

Skattastefna og fyrirkomulag tilfærslna í skattkerfinu eru á meðal helstu grunnstoða réttláts velferðarþjóðfélags. Öflun skatttekna og dreifing þeirra á að stuðla að jöfnuði og réttlæti, án þess að vera um of íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífs. Hallalaus rekstur ríkissjóðs er mikilvæg forsenda velferðar og jafnaðar. Leggja þarf áherslu á að lækka skuldir ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði sem nú er einn stærsti útgjaldaliður ríkisins.

Styrkja verður stöðu ríkissjóðs með því að auka hlut almennings í þeirri auðlindarentu sem nýting fiskistofnanna og annarra takmarkaðra auðlinda í þjóðareign skapar. Þannig séu nýtingarleyfi veitt til hóflegs tíma í senn og á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi.

Samfylkingin leggur áherslu á öflugt, skilvirkt og réttlátt skattkerfi til að fjármagna opinberan rekstur og ná pólitískum markmiðum um:

 • tekjudreifingu og jöfnuð
 • húsnæðisstefnu og önnur félagsleg málefni
 • atvinnustefnu
 • skilvirka efnahagsstjórn
 • umhverfismál

Nýta þarf tilfærslukerfi ríkisins á borð við barna-,  húsnæðis- og vaxtabætur, auk persónuafsláttar mun betur til þess að bæta lífskjör fólks. Við viljum tvöfalda það fjármagn sem fer í barnabætur og styðja betur við leigjendur og fyrstu kaupendur.

Sköttum og gjöldum verði beitt sem hagstjórnartækjum og hvötum, m.a. til að efla fjárfestingu og nýsköpun, bæta lýðheilsu og draga úr mengun, og í samræmi við markmið um eflingu græna hagkerfisins. Samfylkingin hafnar tvöföldu velferðarkerfi og telur að grunnþjónustu velferðarkerfisins eigi að fjármagna með almennri skattheimtu og halda beri beinni gjaldtöku notenda innan hóflegra marka.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V

 

Réttlátt skattkerfi

Við ætlum ekki að hækka skatta á almenning á Íslandi. Hins vegar ætlum við að hliðra til innan skattkerfisins til að gera það réttlátara. Kjör almennings verða sett í forgang og um leið stöðvuð sú þróun að þeir ríku verði áfram ríkari á sama tíma og aðrir sitja eftir.

Sjálfbær vöxtur

Við munum tryggja að vöxtur verði sjálfbær, ekki verði gengið um of á auðlindir landsins og hagsældin skiptist með réttlátum hætti. Endurvekjum tillögur um græna hagkerfið með hliðsjón af loftslagsmarkmiðum og grænum vexti.

Heilbrigt fjármálakerfi

Við munum tryggja þverpólitíska og faglega vinnu um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið áður en teknar verða frekari ákvarðanir um sölu ríkisbanka. Þar verði hagur almennings og atvinnulífs leiðarljós.

Peningastefna sem fer saman við ríkisfjármálastefnu

Til að tryggja lága verðbólgu og vaxtastig þarf ríkisfjármálastefna að haldast í hendur við peningastefnu. Þar þarf að byggja á varkárni og réttlátri skiptingu gæðanna.

Sátt á vinnumarkaði

Sátt á vinnumarkaði byggist á því að ná sátt um skattkerfið og velferðarsamfélagið. Efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki þarf að fara saman og mun ekki nást nema með því að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins vinni saman að slíkri sátt.

Nýsköpun og skapandi greinar

Aukin fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun er grundvallaratriði til að tryggja velsæld samfélagsins til framtíðar. Meðal þess sem þarf að gera er að búa betur að verkmenntaskólum og tryggja að fjármögnun íslenskra háskóla verði sambærileg við háskóla á Norðurlöndum. Stefna þarf að því að hlutfall vergrar landsframleiðslu sem renni til rannsókna og þróunar sé 3% í lok kjörtímabilsins. Mikilvægt er að skýra stjórnsýslu skapandi greina innan stjórnkerfisins, tryggja þarf stöðu lista og skapandi greina innan rannsóknasjóða og tryggja að fagleg sjónarmið séu ráðandi við úthlutun opinbers fjár til verkefna á sviði lista og skapandi greina. Bæta þarf hagtölugerð um íslenskt atvinnulíf m.t.t. rannsókna, verðmætasköpunar, skapandi greina, útflutnings og nýsköpunar og nýta hagtölur til stöðugra umbóta í menntun, vísindum og nýsköpun.

 

Sjá einnig:

Þrjú helstu atriðin sem flokkurinn setur á oddinn í kosningabaráttunni

Velferðarmálin og almannatryggingar

Efnahags- og atvinnumál

Mennta- og menningarmál

Utanríkismál

Stjórnkerfið

Það sem kjósendur ættu að varast

Umhverfismál

Þarf að herða refsingar í kynferðisbrotamálum?

Samgöngumál

Á Þjóðkirkjan að vera á fjárlögum?

Stjórnarskráin

Húsnæðismál

Sjávarútvegsmál

Uppreist æra

Málefni krabbameinssjúklinga

Útlendingamál

Landbúnaðarmál

Heilbrigðismál

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kennir Sjálfstæðisflokknum um Káraklúðrið

Kennir Sjálfstæðisflokknum um Káraklúðrið
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Fangelsinu á Akureyri lokað til að nýta peningana betur annars staðar

Fangelsinu á Akureyri lokað til að nýta peningana betur annars staðar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Pútín birti grein í Morgunblaðinu

Pútín birti grein í Morgunblaðinu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Skera verður niður óþarfa kostnað vegna Covid-19 kreppunnar

Skera verður niður óþarfa kostnað vegna Covid-19 kreppunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar vill svör – „Á meðan þingheimur sleikir sólina sleikir þjóðin sárin“

Ragnar vill svör – „Á meðan þingheimur sleikir sólina sleikir þjóðin sárin“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dvínandi stuðningur við ríkisstjórnina en þó meirihluti

Dvínandi stuðningur við ríkisstjórnina en þó meirihluti