„Ég bið þig afsökunar ef orð mín voru særandi. Það var ekki meint þannig. Sem fjarsýn kelling úr miðbænum, með alvarlega sjónskekkju og of stóran skammt af hvatvísi, fullvissa ég þig um að þetta var meint sem hrós. Fólk samsamar sig með þér af því þú býrð yfir lífsreynslu. En ég hefði átt að vera taktvissari.“
Þetta segir hin reynda fjölmiðlakona Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á Facebook-síðu sinni. Þóra hefur starfað á RÚV, Stöð 2, Fréttatímanum og ritstýrt Smugunni, vefriti Vg. Ástæða þess að Þóra ákvað að biðjast afsökunar var frétt Eyjunnar sem bar fyrirsögnina: Þóra Kristín kallar Ingu Sæland formann Flokk fólksins sextuga blinda kellingu úr Breiðholtinu. Orðrétt sagði Þóra Kristín:
„Ég skil svolítið kjósendur í Breiðholtinu, úti á landi eða eitthvað svona, sem að hlaupa í fangið á Ingu Sæland. Blind kelling úr Breiðholtinu, sextug, voða hress. Talar um lífeyrisþega.. hvaða lífeyrisþegar eru á listum innan flokkanna?“
Segir Þóra að hún hafi meint þetta sem hrós en í frétt Eyjunnar var einnig haft eftir Þóru:
„Ég meina, hún er að tala máli þessa fólks, þessa óánægða fólks sem á sér ekki stað á hinum listunum. Þetta er stór hópur. Þarna er bara sextug alþýðukona, hún er blind, rúnum rist, rosalega mælsk, það bara sogast að henni fylgið frá Sjálfstæðisflokki og þetta þarna fylgi hægra megin sem hefur verið svolítið munaðarlaust. En ég skil það út af fyrir sig að fólk vilji treysta sínum líkum.“
Inga Sæland sagði í samtali við Eyjuna að hún væri ekki blind og ætti ekki heima í Breiðholtinu.
„Þetta er bara dóni, kurteisi kostar ekki neitt. Svo er þetta ekki alveg satt. Ég er sjónskert miðaldra kona í Grafarholti fyrst hún vill endilega draga það fram. Ég er ekki sextug, ég er nýorðin 58 ára gömul. En það er alveg satt hjá henni að ég er að berjast fyrir réttindum almennings, öryrkja, eldri borgara og lífeyrisréttindum okkar, algjörlega og af fullum þunga.“
Þá sagði Inga:
„Ég er döpur yfir þessum ummælum Þóru. við áttum saman ánægjulegt viðtal fyrir rétt um ári síðan og ég gat ekki merkt það á nokkurn hátt að hún væri óvelviljuð. En hvað um það, sleppum því, eins og segir í textanum góða.“
Þóra Kristín hefur fengið mikil viðbrögð vegna fréttar Eyjunnar. Hún telur frétt Eyjunnar skrifaða í þeim tilgangi að minna á að hún hafi ritstýrt Smugunni. Því vísar ritstjórn Eyjunnar á bug. Þá segir Þóra Kristín að fréttin sé spuni Björns Inga Hrafnssonar. „Eða er það ekki hann annars sem á þetta vefrit eða er það einhver annar?“ spyr Þóra Kristín. Þess má geta að nýir eigendur tóku við Eyjunni um mánaðamót.
Þóra Kristín fær nokkurn stuðning á Facebook-síðu sinni. Sjálf segir hún að um útúrsnúninga sé að ræða og þeir séu sorglegir. „Það er greinilega til of mikils mælst að fólk lesi það sem það er að gagnrýna eða hlusti á það til enda.“
Þá segir Facebook-vinur hennar, Elías Svavar Kristinsson að honum finnist alvarlegast hvað lesskilningi þjóðarinnar sé farið að hraka sem les last úr hóli. Þóra Kristín lýsti yfir velþóknun við skrif Elíasar með því að smella á þau „like en Elías segir:
„Ég hef fullar efasemdir að við þurfum þingmann sem hefur ekki lesskilning á við 12 ára barn.“
Þóra greinir einnig frá því á Facebook að hún hafi átt fótum sínum fjör að launa og orðið fyrir árásum frá æstum múgi, „bæði raunverulegu fólki og gerviprófílum flokkanna, sem elti mig með grjótkasti í holræsakerfi samfélagsmiðlanna og sakaði mig um að ætla að leggja eld að Breiðholtinu, mannfyrirlitningu, aldursfordóma, einelti og ofbeldi gegn blindum og sjónskertum. Ég var sögð illgjörn, vond, forljót, viðbjóðslega innrætt og almennt illþýði.“
Það má greina kaldhæðni í skrifum Þóru þegar hún leggur til að Miðflokkurinn og Flokkur fólksins sameinist.
„Þau geta síðan boðið fram ritstjóra Morgunblaðsins í einhverju kjördæminu.“