Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi ráðherra og formaður Vinstri grænna leiðir lista flokksins í Norðausturkjördæmi. Framboðslisti Vinstri grænna í kjördæminu var samþykktur einróma á aukafundi kjördæmisráðs á Akureyri í kvöld. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður er í öðru sæti og Ingibjörg Þórðardóttir framhaldsskólakennari er í þriðja sæti. Edward H. Huijbens, varaformaður Vinstri grænna, er svo í fjórða sæti.
Steingrímur hefur setið lengst á Alþingi af öllum þeim sem eru framboði, í 34 ár, frá því 1983. Steingrímur var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1988–1991, fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009, fjármálaráðherra 2009–2011, efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2011–2012 og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 2012–2013.