Helga Vala Helgadóttir oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík segir að eftir að hafa lesið umfjöllun Guardian, Reykjavík Media og Stundarinnar í dag þá liggi fyrir að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hafi nýtt sér innherjaupplýsingar sem almenningur hafi ekki sér í eigin hag. Líkt og greint var frá í morgun þá sat Bjarni, sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fundi um alvarlega stöðu bankakerfisins, alls mun hann hafa selt bréf í Glitni fyrir 120 milljónir króna eftir að hann fundaði með bankastjóra Glitnis.
Sjá einnig: Bjarni seldi í Sjóði 9 rétt fyrir hrun
Bjarni sagði við blaðamann Guardian að hann hafi ekki búið yfir innherjaupplýsingum, búið sé að rannsaka málið og ekkert hafi komið úr því:
„Allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þesum tíma.“
Helga Vala segir á Fésbók:
Nú er mál að linni! Fyrir liggur að Bjarni Benediktsson hefur nýtt innherjaupplýsingar sjálfum sér og fjölskyldu sinni til heilla, upplýsingar sem almenningur í landinu hafði ekki og gat því ekki forðað fjármunum sínum að sama skapi. Það er skýrt lögbrot ef rétt er skv lagaákvæðum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.
Kallar hún eftir nýrri rannsóknarnefnd þar sem það liggi fyrir að rannsakendur í fyrri rannsóknum hafi ekki haft aðgang að öllum gögnum:
Þetta kallar á að Alþingi skipi án tafar rannsóknarnefnd því þó aðdragandi hruns hafi verið rannsakaður er augljóst að enn leynast upplýsingar sem rannsakendur höfðu ekki. Sönnun í innherjasvikamálum er flókin en miðað við þau gögn og upplýsingar sem hér birtast virðist sem margt er tengist aðdraganda hruns, vitneskju innherja og viðskiptum í kjölfarið gefa ærið tilefni til rannsóknar.