Traust milli stjórnmálamanna og almenning, tvöfaldaðar barnabætur, bætt kjör aldraðra og öryrkja, menntun, barátta gegn misrétti og misskiptingu var inntakið í ræðu Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á Hótel Natura í dag. Kynntir voru framboðslistar í öllum kjördæmum og stjórnmálaályktun flokksins var lögð fram.
Samfylkingin beið afhroð í kosningunum í fyrra, fékk flokkurinn aðeins 5,7% atkvæða á landsvísu, var það langt frá því að hafa stuðning nærri þriðjungs þjóðarinnar líkt og flokkurinn hafði í byrjun aldarinnar og var stærsti flokkurinn eftir kosningarnar 2009. Flokkurinn mælist nú með rúm 10% sem er yrði mikil fylgisaukning hlutfallslega en langt frá því sem áður var.
Logi minntist á atburði dagsins í ræðu sinni, sagði hann að enn á ný væru íslensk stjórnmál í kastljósi erlendra fjölmiðla vegna skorts á siðferði og heiðarleika forsætisráðherra þjóðarinnar:
Traust á milli íslenskra stjórnmálamanna og almennings verður ekki endurheimt nema þessi mál séu rædd ýtarlega og gerð upp. Auk þess þarf almenningur að fá meiri aðkomu að mikilvægum ákvörðunum,
sagði Logi og bætti við:
Í þessari kosningabaráttu verður að ræða um gildi og siðferði samfélagsins. Þótt lög og reglur séu mikilvægar mun ekkert samfélag lifa, ef þau eru hinn eini marktæki mælikvarði. Þrátt fyrir allt byggir samfélagssáttin fyrst og fremst á hinum óskráðu viðmiðum og siðviti manna.
Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og stofnandi Besta flokksins lýsti svo yfir stuðningi við Samfylkinguna í lok fundarins nú rétt í þessu. Besti flokkurinn þróaðist yfir í Bjarta framtíð fyrir þingkosningarnar 2013 og því kemur stuðningsyfirlýsing Jóns nokkuð á óvart. Lýsti Jón því yfir að hann væri kominn um borð og ætlaði að vinna að framboðinu.