Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, upplýsti nýlega að hann hefði verið beðinn um að hafa sig hægan og segja sem minnst í kosningabaráttunni.
Sjá einnig: Brynjar beðinn um að tjá sig sem minnst
Honum tókst þó ekki að þegja lengi og tekur nú Hugo Chavez og ömurlegt ástandið í Venesúela sem víti Samfylkingunni til varnaðar:
Kannski muna ekki allir, eða hafa aldrei vitað, að vinur minn Hugo Chavez komst til valda í lýðræðislegum kosningum. Ég minnist ekki annarra eins fagnaðarláta hjá íslenskum vinstri mönnum. Hann fór strax í að breyta stjórnarskrá Venesúela til að tryggja stefnu sina og völd eins og vinstri menn reyndu á Ísland 2009 til 2013. Öfugt við Ísland hélt Hugó völdum lengur en eitt kjörtímabil og tókst því að eyðileggja auðugasta ríki Suður-Ameríku á innan við 10 árum.
Brynjar viðurkennir fúslega að um hræðsluáróður sé að ræða:
En hann kemur ekki til af ástæðulausu. Við sem höfum lesið saman stefnuskrá Hugos og vinsælasta flokks á Íslandi um þessar mundir erum skíthræddir. Ef Samfylkingin ætlast ekki að hunskast til að verða frjálslyndur krataflokkur er voðinn vís. Uppstilling hjá þeim ágæta flokki eykur manni ekki bjartsýni.
Gústaf, bróðir Brynjars, gerir athugasemd við þessi orð litla bróður síns og kann honum litlar þakkir fyrir að vera að leiðbeina Samfylkingunni:
„Þetta er allt komið að fótum fram hjá þeim.“