Vinstri grænir yrðu langstærsti flokkurinn á Alþingi ef kosið yrði í dag, Björt framtíð og Viðreisn myndu hverfa af þingi og ekki þarf mikið til að Framsóknarflokkurinn myndi líka detta af þingi. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunnar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis yfir fylgi flokkanna.
Vinstri grænir fengju 29%, Sjálfstæðisflokkurinn 22%, Píratar 11,4% og Samfylkingin 10,6%. Miðflokkurinn fengi 8,9%, Flokkur fólksins 5,8% og Framsóknarflokkurinn 5,5%.
Björt framtíð og Viðreisn fengju hvor um sig tæp 3% sem dugar ekki til að ná inn manni á þing. Önnur framboð fengju 1,4%.
Könnunin var gerð dagana 2. og 3. október, hringt var í 1.354 manns þar til náðist í 800. Svarhlutfallið var því 59,1 prósent og tók 62,1 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. 9% myndu ekki kjósa, 11% eru óákveðnir og 18% vildi ekki svara.