„Það á ekki að hækka skatta á almenning í landinu, það á að hliðra til í skattkerfinu. Við viljum frekar horfa til þess að skattleggja þá efnamestu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna í þættinum Bítið á Bylgjunni nú í morgun. Hefur því verið beint gegn Vinstri grænum í kosningabaráttunni að skattar á einstaklinga og fyrirtæki muni hækka ef VG kemst í ríkisstjórn, nú síðast í Morgunblaðinu í morgun þar sem Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði engan vafa leika á því að VG og Samfylkingin muni hækka skatta ef flokkarnir kæmust í ríkisstjórn.
Katrín segir að það liggi fyrir að skattbyrgðin hafi aukist mest á þá hópa sem hafa lægstu launin, vill hún beina sköttunum að þeim sem hafa hæstu tekjurnar og nefnir hún þá sérstaklega kaupauka í fjármálakerfinu:
Ég hef talað um bónusana sem allir verða brjálaðir yfir með reglubundnum hætti en það er ekkert gert í því. Einfaldasta leiðin til að gera eitthvað í því er að skattleggja þá,
sagði Katrín. Vill hún hlífa tekjulægstu hópnunum, það sé hægt að gera með lægri skattprósentu, hækkuðum persónuafslætti eða öðru. Aðspurð hvort skattar á hinu tekjulægstu hafi ekki einfaldlega hækkað vegna þess að launin þeirra hafi hækkað þá sagði Katrín:
Ef horft er á skattkerfið og bótakerfið þá hefur það ekkert fylgt launaþróun. Horfum bara á barnabætur og vaxtabætur, ASÍ var að gefa út fína skýrslu um þetta, það er búið að skerða þessa þætti þannig að skattbyrgðin í raun og veru ásamt því að vaxtabætur hafa verið skertar þannig að þessir hópar hafa setið eftir. Horfum bara á hver lægstu launin eru í samfélaginu, 280 þúsund krónur, og það fólk er að borga skatt. Og þetta er undir þeim framfærsluviðmiðum sem stjórnvöld gefa út.
Útilokar ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn
Miðað við síðustu kannanir þá er ríkisstjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins eina tveggja flokka meirihlutastjórnin sem er í boði eftir kosningar, fyrir síðustu kosningar voru mörg framboð og frambjóðendur tilbúnir til að útiloka samstarf við tiltekna flokka fyrirfram en lítið hefur borið á slíkum yfirlýsingum í kosningabaráttunni nú. Aðspurð hvort tveggja flokka ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum komi til greina eftir kosningar sagði Katrín:
Við viljum leiða góða ríkisstjórn fyrir fólkið í þessu landi. Við höfum ekki útilokað samstarf við neinn við vitum hins vegar að þessir flokkar liggja málefnalega ansi langt frá hvor öðrum.