Lagadeild Háskólans í Reykjavík heldur hátíðarmálþing til heiðurs Jóni Steinari Gunnlaugssyni á föstudaginn, í tilefni af sjötugsafmæli lögmannsins.
Yfirskrift málþingsins er Stjórnarskráin í stormi samfélagsins. Stjórnarskráin og margræddar breytingar á henni eru í brennidepli umræðunnar í aðdraganda kosninga og ljóst á mælendaskrá þingsins að fengur verður að því sem þar mun koma fram.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er á mælendaskrá með erindið Ákvæði stjórnarskrár um forseta Íslands. Nýleg sjónarmið og álitamál. Þá tekur Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild HR, til máls og ræðir lýðræði og lagasetningu í ljósi umræðu um uppreist æru og Katrín Oddsdóttir, lögmaður og formaður Stjórnarskrárfélagsins flytur erindi sem hún nefnir Ný stjórnarskrá – ný von.
Málþingið verður haldið í stofu M103 í HR föstudaginn 6. október klukkan 12:00-13:45.