Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að óbreyttu verði mynduð ríkisstjórn Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata, vinstri róttæk ríkisstjórn sem muni stórauka ríkisútgjöld, hækka skatta, auka verðbólgu sem leiðir til hærri vaxta. Segir Bjarni á Fésbók að það sé mikið fagnaðarefni að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi lækkað stýrivexti í dag og að það vekji athygli að nefndin telji ekki ástæðu til að gera ráð fyrir róttækum breytingum á ríkisfjármálastefnunni á næstunni:
Gott ef rétt reynist. Þá geta vextir áfram lækkað og verðbólga haldist í skefjum. Hún er nú 1,4%,
segir Bjarni og bætir við:
Í dag mælist VG hins vegar stærsti flokkurinn og að óbreyttu verður mynduð vinstri stjórn innan fárra vikna undir forystu VG með Samfylkingunni og Pírötum.
Vísar hann í orð Katrínar Jakobsdóttir formanns Vinstri grænna sem hafi kallað ríkisfjármálastefnuna sveltistefnu, segir Bjarni það vera stór orð:
Í samræmi við það hefur flokkurinn boðað mörg hundruð milljarða ný útgjöld næstu árin sem sækja á í vasa skattgreiðenda. Samfylkingin hefur talað á svipuðum nótum.
Það er því í kortunum róttæk breyting. Hún er vinstri róttæk. Hún fjallar um stóraukin ríkisútgjöld og aukna skattheimtu, verðbólgu og hærri vexti.
En framhaldið er í höndum kjósenda.
Við eigum að halda áfram á réttri braut.