Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsvarsmaður Miðflokksins ætlar í mál við þrjá fjölmiðla sem fjölluðu um fjármál hans og eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur. Segir Sigmundur Davíð í viðtali í Morgunblaðinu í dag að hann hafi lengi undirbúið málsókn vegna umfjöllunar í Wintris-málinu.
Í gærmorgun var því birtist á forsíðu Fréttablaðsins fyrirsögn þess efnis að Anna Sigurlaug hafi ofgreitt skatta vegna Wintris og í grein í sama blaði fagnaði Sigmundur Davíð úrskurði yfirskattanefndar og sagði það málalok í umræðunni um Wintris. Var fréttinni deilt á samfélagsmiðlum af stuðningsmönnum Sigmundar Davíð og af Fésbókarsíðu Miðflokksins.
Kjarninn birti svo sama morgun fréttaskýringu upp úr úrskurði yfirskattanefndar með fyrirsögninni Wintris greiddi ekki skatta í samræmi við lög og reglur, birti Kjarninn síðan leiðarann Munurinn á staðreyndum og spuna sem fjallaði um Sigmund Davíð. Síðdegis birti Stundin svo fréttina Leyndu tilvist Wintris og greiddu ekki skatta í samræmi við lög. Í gærkvöldi birti RÚV svo fréttina Horfðu fram hjá Wintris í skattskilum. Þess má geta að sömu miðlar unnu upp úr gögnum frá Mossack Fonseca í samstarfi við Reykjavík Media í fyrra.
Sigmundur Davíð vildi hins vegar ekki nefna fjölmiðlana þrjá sem hann hyggst leita réttar sín gegn:
Sumir halda áfram og kunna ekki að skammast sín og slá upp fyrirsögnum sem eru hrein lygi, eins og ég hef séð á netinu í dag [í gær]. Ég hef því ákveðið að fylgja málum eftir og hef sett mig í samband við lögfræðinga til þess að kanna rétt minn gagnvart þessum aðilum,
sagði Sigmundur Davíð. Hann ætlar að bíða með málshöfðun fram yfir kosningar, en hann segir undirbúningsvinnuna þegar hafna:
Því það eru takmörk fyrir því hvað maður getur lengi setið undir hreinum ósannindum, áróðri sem er farinn út fyrir öll mörk, ekki bara velsæmismörk, heldur mörk alls sem á nokkuð skylt við sannleikann.