„Það er ekki óhugsandi að það hafi gert einhvern tímann þó að ég muni ekki eftir því, en þetta er auðvitað mjög óvenjuleg ráðstöfun af því að stjórnmálamaður í framvarðasveit hefur öll tækifæri til að koma framfæri sínum sjónarmiðum,“ segir Þorbjörn Broddason prófessor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands í samtali við Eyjuna. Líkt og greint var frá í morgun undirbýr nú Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsvarsmaður Miðflokksins málshöfðun á hendur þremur fjölmiðlum fyrir að fjalla um fjármál sín og eiginkonu sinnar.
Sjá einnig: Sigmundur Davíð ætlar í mál við fjölmiðla
Þorbjörn vill ekki fullyrða að þetta sé í fyrsta sinn sem stjórnmálamaður ætli að höfða mál gegn fjölmiðlum, vissulega sé öllum frjálst að leita réttar síns ef á þeim sé brotið en það hafi tíðkast upp á síðkastið að fjársterkir aðilar hafi lögsótt fjölmiðla til að þagga niður í þeim:
Nánast undantekningalaust eru íslenskir fjölmiðlar fjárvana og þá getur það verið sterkur leikur til þess að veikja þá enn frekar en einnig til þess að fæla menn frá. Fælingarmátturinn felst í að fá menn til að hugsa sig tvisvar um næst áður en þeir skrifa eitthvað sem gæti komið sér illa fyrir stjórnmálamann eða aðra. Á síðustu árum höfum við séð þetta frá fjársterkum öflum sem hafa nóg af peningum til að fara í mál við fátækan fjölmiðil,
segir Þorbjörn. Sigmundur Davíð sagði í viðtali í Morgunblaðinu í morgun að hann hefði setið undir hreinum ósannindum, áróðri sem færi út fyrir öll velsæmismörk og fyrirsögnum sem væru hreinar lygar, því ætli hann að kanna rétt sinn gagnvart þeim aðilum. Þorbjörn segir að það sé ekki besta leiðin til að komast til botns í málum sé að lögsækja fjölmiðil:
Það er ekki hægt að efast um að Sigmundi finnist umfjöllunin um sig vera ósanngjörn og að hann vilji grípa til varna, en hann er öflugur stjórnmálamaður og það miklu nærtækara fyrir hann bara að svara. Hann hefur allar forsendur til að svara og það af meiri nákvæmni en hann hefur gert hingað til. Fjármál stjórnmálamanna koma okkur við, einkalíf fólks í stjórnmálum lýtur öðrum lögmálum en fólks úti í bæ og þess vegna geta stjórnmálamenn ekki kippt sér upp við það ef þessi mál eru rannsökuð og það er hlutverk fjölmiðlanna að rannsaka stjórnmálamennina. Sigmundur er með öll gögn málsins og ef eitthvað er óskýrt þá getur hann gert grein fyrir því.
Sjá einnig: Sigmundur Davíð fagnar
Þorbjörn segir að grein Sigmundar í Fréttablaðinu í gær hafi kallað á viðbrögð og ef honum líki ekki við þau viðbrögð þá eigi hann að bregðast við því með þeim vopnum sem hann hafi. Útspil Sigmundar Davíðs sé innlegg í kosningabaráttuna og á endanum séu það kjósendur sem dæmi:
Hann er að sjálfsögðu í fullum rétti að halda fram sínum málstað og leiðrétta ef hann telur þörf á því, það er ekkert athugavert við það að nota þessa hluti í kosningabaráttunni. Það skiptir miklu máli fyrir stjórnmálamann hvernig svona umræða þróast. Hver á síðan eftir að ríða feitasta hestinum að lokum verður bara að koma í ljós.