Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fékk sér að borða hjá félaga sínum Hlal Jarah, sem skipar 14. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hlal, sem er Sýrlendingur, flutti til Íslands árið 2005 og rekur veitingastaðinn Mandi sem stendur við Hallærisplanið.
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, birti mynd af glaðbeittum formanninum á Facebook með þeim orðun að Logi hafi ekki verið „óhress með að fá almennilegan mat enda þarf orku í þessa baráttu.“
Hlal er annálaður ástríðukokkur og þykir gera eins gott kebab og hugsast getur miðað við íslenskar aðstæður. Hann hefur eldað á ýmsum stöðum á Íslandi, meðal annars á Saffran, en áður en hann kom hingað hafði hann kokkað í Dubaí, Sádi-Arabíu og Abu Dhabi.
Hann fluttist til Íslands eftir að Íslendingar komu að máli við hann í Dubaí og fengu hann til þess að koma hingað og elda almennilegan arabískan mat.