Páll Magnússon oddviti Sjálfstæðisflokksins lítur á skipan ráðherra í ríkisstjórnina sem mistök. Hann segir málið ekki snúast um sig sem persónu og tók hann það skýrt fram að hann styður Bjarna Benediktsson formann flokksins og ríkisstjórn hans. Páll segir Bjarna skynsaman mann og hljóti því að leiðrétta mistökin:
„Formaður flokksins er skynsamur maður og leiðréttir þau ábyggilega við fyrsta tækifæri,“
sagði Páll í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Líkt og greint var frá í vikunni greiddi Páll ekki atkvæði með tilllögu Bjarna að ráðherraskipan flokksins. Enginn ráðherra í ríkisstjórninni kemur úr Suðurkjördæmi en Unnur Brá Konráðsdóttir, 8. þingmaður Suðurkjördæmis, verður forseti Alþingis. Páll segir ráðherraskipanina ganga á skjön við lýðræðislegt umboð þingmanna og sé lítilsvirðing við kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Páll á ekki von á uppstokkun í ríkisstjórninni á næstunni, þetta sé bara afstaða í þessu tiltekna máli sem hafi ekkert að gera með stuðning hans við ríkisstjórnina og Bjarna. Aðspurður um hvernig Bjarni geti leiðrétt þessi mistök sagði Páll:
Hann getur leiðrétt þessi mistök með því að forystumaður í sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins á að sitja við ríkisstjórnarborð þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn. Þetta er einfalt mál.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is