Gréta Björg Egilsdóttir varaborgarfulltrúi Framsóknar og Flugvallarvina hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum. Samkvæmt heimildum Eyjunnar mun Gréta Björg hafa sagt samstarfsmönnum í Reykjavík að samvisku sinnar vegna geti hún ekki lengur starfað í Framsóknarflokknum.
Óvíst er hvort hún og aðrir borgarfulltrúar Framsóknarflokksins hyggjast ganga til liðs við nýtt framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir ætlaði að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður í komandi kosningum en dró framboð sitt til baka. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sagði sig nýverið úr Framsóknarflokknum en hún sagði í samtali við Eyjuna að hún sé ekki búin að gera upp hug sinn um framhaldið.
Margir hafa yfirgefið Framsóknarflokkinn í kjölfar brotthvarfs Sigmundar Davíðs úr flokknum, þar á meðal nokkrir formenn flokksfélaga, formaður Landssambands Framsóknarkvenna og minnst tveir formenn ungliðahreyfinga Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn hefur ekki viljað upplýsa hversu margir hafa sagt sig úr flokknum í vikunni.