Brynjar Níelsson og Guðlaugur Þór Þórðarson verða oddvitar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir komandi kosningar. Það er vilji uppstillingarnefndar Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þetta hefur Eyjan eftir áreiðanlegum heimildum.
Sjö manns sitja í kjörnefnd og verður tillaga nefndarinnar borin upp til samþykktar næstkomandi laugardag. Framboðsfrestur rennur út á fimmtudag.
Gísli Kr. Björnsson formaður Varðar sagði í samtali við RÚV:
„Þetta eru stystu kosningar og stysta kosningabarátta í sögu lýðveldisins, að þá held ég að það sé nauðsynlegt að horfa til sömu lista og fengu lýðræðislegt umboð í fyrra í prófkjöri sjálfstæðismanna. Að auðvitað því undanskildu sem er auðvitað okkar sorg, sem er fráfall leiðtogans í Reykjavík suður, Ólafar Nordal, en þar myndi þá fólk færast upp.“
Samkvæmt heimildum Eyjunnar er það vilji kjörnefndar að Guðlaugur Þór haldi sæti sínu í Reykjavík norður en Brynjar Níelsson muni í stað Ólafar Nordal skipa efsta sæti í Reykjavík suður en hann skipaði annað sætið á eftir henni á listanum fyrir ári síðan.