Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að þó svo að kosningarnar 28. október næstkomandi hafi boðið upp á pólitíska óvissu og fall á fjármálamarkaði þá séu þær stórkostlegt tækifæri til að skapa betri grundvöll fyrir sterkari stjórnmál sem virki. Í grein sem Bjarni skrifar í Fréttablaðið í dag rifjar hann upp orð sín um að aldrei hafi verið jafn bjart framundan hjá Íslendingum og nú, tækifærin séu víða en ein mikilvæg forsenda þess að það rætist sé að stjórnmálin virki:
Við töpum dýrmætum tíma með því að efna til kosninga, einungis ári eftir þær síðustu. Pólitískur óstöðugleiki býður einnig heim ýmiss konar hættu og kostnaði. Þegar hefur komið fram að stjórnarslitin hafi á fyrsta degi þurrkað út 32 milljarða sparnað landsmanna. Væntingar um verðbólgu hækkuðu á mörkuðum en það getur leitt til hærri vaxta. Fleira mætti tína til, fjárfestar, bæði innlendir og erlendir, hafa tilhneigingu til að halda að sér höndum þar sem pólitísk óvissa ríkir. Slíkt dregur úr hagvexti og störf tapast,
segir Bjarni. Þegar horft sé fram hjá tímanum sem hafi tapast og fjármununum þá segir Bjarni það vera mikilvægt að endurheimta stöðugleika í stjórnarfari:
Kosningarnar nú eru vissulega merki um óstöðugleika og óvissan kostar tíma og fjármuni. En um leið eru þær stórkostlegt tækifæri til að skapa betri grundvöll fyrir sterkari stjórnmál sem virka. Nýtum þetta tækifæri vel.