Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Framsóknarflokksins segir það jafn mikilvægt að koma til móts við og bjarga fjölskyldum sauðfjárbænda og að koma börnum í skjól. Gagnrýndi hann á Alþingi í dag að vandi sauðfjárbænda væri ekki á dagskrá þingsins, Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna sagði að mikilvægasta málið væri að samþykkja lög um útlendinga til að koma í veg fyrir að börnum, þar á meðal Mary og Haniye, yrði vísað úr landi. Því var Gunnar Bragi ekki sammála:
Ég tek ekki undir með þingflokksformanni VG að miklvægasta málið sé að koma börnum í skjól. Það er mikilvægt mál, en það er jafn mikilvægt og að koma til móts við og að bjarga búum og fjölskyldum sauðfjárbænda,
sagði Gunnar Bragi. Vandi sauðfjárbænda var í deiglunni áður en boðað var til kosninga en þar sem aðeins var samið um að gera breytingar á lögum um útlendinga og lögum um uppreist æru á síðasta degi þingsins þá er ljóst að vandinn verður ekki leystur fyrr en eftir kosningar. Vildi Gunnar Bragi vita hvers vegna vandi sauðfjárbænda væri ekki á dagskrá þar sem það væri jafn mikilvægt mál og þau sem voru á dagskrá:
Hvernig stendur á því að við erum ekki hérna með eitt brýnaasta málið sem þurfi að leysa í dag? Ég tek ekki undir með þingflokksformanni VG að miklvægasta málið sé að koma börnum í skjól. Það er mikilvægt mál en það er jafn mikilvægt og að koma til móts við og að bjarga búum og fjölskyldum sauðfjárbænda.