Píratarnir Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segja að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi notað bága stöðu barna sem pólitíska skiptimynt til að neyða aðra flokka til samkomulags um þinglok. Samkomulag náðist milli fimm flokka um þinglok í kvöld og á morgun verða á dagskrá breytingar á lögum um uppreist æru og breytingar á lögum um útlendinga. Píratar og Samfylkingin sættu sig ekki við samkomulagið. Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata er mjög ósátt við niðurstöðuna en hún vill fá stjórnarskrármálið á dagskrá:
Bjarni Ben beitti þeim ógeðfeldu brögðum að nota bága stöðu barna í neyð sem pólitíska skiptimynt til að neyða aðra flokka til samkomulags um þinglok. Hann hótaði því að taka þingið í gíslingu ef við féllumst ekki á vilja hans,
segir Birgitta í færslu á Pírataspjallinu, segir hún Bjarna hafa verið dónalegan:
Það var ömurlegt að horfa upp á vinnubrögð hans, en hann neitaði alfarið að ræða málin og hafði ekkert fram að færa nema hótanir og almennan dónaskap.
Logi Einarsson segir það hafa verið ömurlega stöðu að semja um þinglok bak við luktar dyr þar sem öryggi og velferð barna hafi verið notað sem skiptimynt. Er hann þó ánægður með að hafa náð í gegn útlendingamálunum þar sem tryggja eigi stúlkunum Mary og Hanyie íslenskan ríkisborgararétt. Smári segir á Fésbók að hann hafi líkt og Logi og Birgitta fá stjórnarskrármálið á dagskrá en Bjarni hafi stillt þeim upp við vegg með því að segja að það yrði ekkert samkomulag nema fallið yrði frá stjórnarskrármálinu:
Með því var hann hóta að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðlilegri kröfu um lýðræðisúrbætur. Við harðneituðum að lúffa fyrir svona ósmekklegum hótunum, og fyrir rest varð niðurstaðan sú að fimm flokkar urðu aðilar að samkomulaginu, en Píratar og Samfylkingin héldu sínu striki: við ætlum að tryggja réttlætið, öryggi barna, og að krafan um lýðræðisúrbætur fái þinglega meðferð.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna var með sömu áherslur og Píratar og Samfylkingin, segir hún að allir hafi tekið vel í breytingar á stjórnarskránni nema Sjálfstæðisflokkurinn:
Því miður náðist ekki samkomulag allra um málið og því metum við Vinstri-græn það svo að best sé að ljúka þinginu þannig að börnum í hópi hælisleitenda verði komið í skjól, stigin verði fyrstu skref í átt að því að afnema uppreist æru úr hegningarlögum og Alþingi sæki svo nýtt umboð til þjóðarinnar.