„Ástæðan fyrir stjórnarslitunum var ekki fjárlagafrumvarpið og forgangsröðun í tekjuöflun og útgjöldum ríkisins. Ástæðan var ekki svik á kosningaloforðunum. Ekki fjármálaáætlanir ríkisstjórnarinnar um samdrátt í sjúkrahús- og heilbrigðisþjónustu, ekki bág kjör þeirra sem verst standa, ekki skólarnir og ekki húsnæðisvandinn og þá ekki slæmir vegir, fjársvelt lögregla eða krafan sem ekki hefur verið svarað um auðlindir í þjóðareign og nýju stjórnarskrána.“
Þetta segir Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar í pistli sem hún skrifar á Eyjuna í dag. Segir hún að stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð hafi verið sammála um að taka ekki á þessum stóru hagsmunamálum almennings. Það hafi verið staðfest með fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætluninni þeirra til næstu fimm ára:
Með stjórnarslitunum gefst kjósendum óvænt og gott tækifæri til að kjósa að nýju og nú flokka sem eru með hjartað á réttum stað og vilja til að taka á stærstu hagsmunamálum almennings. Samfylkingin vill að fyrst verði ráðist í að leysa bráðavanda og gera langtímaáætlanir um betra velferðarsamfélag.
Nefnir Oddný sjö atriði sem þurfi að byrja á:
Ráðast á húsnæðisvandann með byggingu þúsunda íbúða sem leigðar verða út án gróðrasjónarmiða og með möguleikum á kaupleigu.
Styrkja heilbrigðisþjónustu í opinberum rekstri. Taka markviss skref í átt að ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir alla og niðurgreiða tannlækningar aldraðra og öryrkja strax.
Styrkja menntakerfið til að taka við nýjum áskorunum.
Bæta kjör öryrkja og einfalda útreikninga á lífeyri. Hækka frítekjumark lífeyris og byggja fleiri hjúkrunarrými.
Laga vegi og efla lögregluna.
Gera réttlátar breytingar á skattkerfinu, auka stuðning við ungt fólk og barnafjölskyldur og setja réttláta auðlindastefnu.
Ljúka heildarendurskoðun á stjórnarskrá, virða þjóðaratkvæðagreiðslur og leyfa þjóðinni að ráða hvort haldið verði áfram með samningaviðræður við ESB.
Þetta er allt hægt og við höfum efni á því. Allir eiga að njóta góðærisins!