Ragnar Stefán Rögnvaldsson hefur sagt af sér sem formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík og frá trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Afsögn Ragnars kemur í kjölfarið á afsögn formanna tveggja Framsóknarfélaga, í Reykjavík og á Þingeyri.
Sjá einnig: Formenn Framsóknarfélaga yfirgefa flokkinn
Ragnar Stefán segir í yfirlýsingu til fjölmiðla að hann hafi viljað sjá breytingar þegar hann gekk í flokkinn árið 2009 á sama tíma og gömlu valdaklíkurnar hafi tapað yfirráðum sínum:
Á meðan grasrótin vann gríðarlega gott starf í innra starfi flokksins vöknuðu gömlu valdhafarnir við vondan draum og sáu sér til skelfingar að þeir höfðu misst tökin á flokknum. Voru því bakherbergin til sjávar og sveita fyllt af reyk og í flýti hafist handa við að endurheimta Framsóknarflokkinn til gömlu valdamannanna og flokksgæðinga,
segir Ragnar. Hann segir að það sé að takast með því stilla frambjóðendum upp á móti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni:
Af þessu leiðir að starfi mínu í flokknum er sjálfhætt, ég segi því af mér sem formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík og læt einnig af öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.