„Það er ótrúlega snúið að taka þátt í umræðu sem er svo heit, heiftarleg, ljót og margslungin. Ég forðast ekki erfið mál eða umdeildar ákvarðanir. En þegar maður les málsmetandi fólk halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn bjóði barnaníðinga velkomna, jafnvel að allt Sjálfstæðisfólk umberi ógeðslegustu tegund ofbeldis sem barnaníð er, að menn dreifi skilaboðum til umheimsins þar sem borið er saman afgreiðsla máls um uppreist æru og einum ógeðslegasta barnaníðing sögunnar þá fallast manni hendur.“
Svona hefst pistill Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála- nýsköpunar- og iðnaðarráðherra á Fésbók. Hún segir að hún hafi barist fyrir bættu kerfi þegar kemur að kynferðisbrotamálum, það hafi veirð forgangsatriði þess ráðherra sem hún starfaði fyrir á síðasta kjörtímabili:
Ég þekki fólk sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi, ég er sjálf af þeirri kynslóð sem hefur knúið fram breytingar og lagt þessi mál upp á borð en ekki troðið þeim undir teppi. Og er stolt af því. Það er erfitt að sitja undir því að maður sjálfur og fólk sem manni þykir mjög vænt um, starfar með, þekkir vel hvers gerðar er og treystir skuli einhvern veginn berjast gegn heilbrigðum breytingum í samfélaginu. Það er einfaldlega ekki rétt.
Þórdís Kolbrún segir að hún ætli ekki að þykjast skilja hvað fólk sem hefur upplifað kynferðisofbeldi sjálft eða eigi barn sem hefur þurft að þola það gangi í gegnum:
Ég sem betur fer slapp. Ég á börn sem eru lítil, saklaus og varnarlaus. Ég er alveg ágæt í því að setja mig í spor annarra. Og ég get alveg ímyndað mér að það sé sárt og erfitt að berjast gegn kerfi og finnast það ekki hlusta á mann og skilja mann. Þess vegna fór ég í pólitík. Til að breyta kerfum sem þarf að breyta.
Þeir sem stigið hafa fram eiga heiður skilinn
Smám saman hafi íslenskt samfélag opnað fyrir heilbrigða umræðu um kynferðisofbeldi, þar hafi almenningur verið í forystu og allmörgum skrefum á undan ríkisvaldinu, eins og svo oft:
Þeir sem hafa stigið fram og knúið fram umræðu og vitundarvakningu eiga heiður skilið. Það hefur ekki verið þeim auðvelt. Það hefur skilað árangri. Og ég er stolt af því að tilheyra samfélagi sem færist í rétta átt hvað þetta varðar og finn fyrir mikilli samstöðu um þær breytingar.
Kynferðisofbeldi þrífist síður í samfélagi þar sem umræðan er opin og brotamaður er látinn bera fulla ábyrgð á gjörðum sínum heldur en þar sem slík brot liggja í þagnargildi svo að þolandi upplifir jafnvel að hann eða hún sitji uppi með ábyrgðina. Þess vegna segir Þórdís að skipti aðgerðir eins og Druslugangan og breytt verklag lögreglunnar í heimilisofbeldismálum svo miklu máli. Löggjöfin og framkvæmd laganna hafi færst í rétta átt á undanförnum árum, því ríkisvaldið sé að hlusta. Á árunum 2003-2007 hafi kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga verið breytt á Alþingi, nú séu töluverðar umbætur eru í farvatninu hvað varði málsmeðferð kynferðisbrota sem megi rekja til vinnu sem Ögmundur Jónasson setti af stað sem innanríkisráðherra árið 2010, Hanna Birna Kristjánsdóttir þróaði áfram og Ólöf heitin Nordal lagði lokahönd á með aðgerðaáætlun á liðnu ári:
Betrun er síðan einn mikilvægur þáttur í þessu öllu. Í stjórnarsáttmála fráfarandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á að hrinda henni í framkvæmd. Endurskoðun á uppreist æru var neðar á forgangslista, kannski vegna þess hve málin eru fá, þrátt fyrir allt. Sigríður Andersen er fyrsti ráðherrann til að boða skýra sýn á hvernig breyta eigi þessum 77 ára gömlu ákvæðum, sem standast ekki skoðun í nútímanum. Framkvæmd laganna er gagnrýniverð og um það eru allir sammála.
Stjórnmálamenn verða að líta í eigin barm
Þórdís Kolbrún segir að stjórnmálin hafi um margra ára skeið skort tiltrú meðal almennings. Stjórnmálamenn verði að líta í eigin barm og gera allt sem í þeirra valdi standi til að endurheimta það traust sem verður að ríkja til að lýðræðið þrífist:
Annar samstarfsflokkurinn ákvað að sprengja ríkisstjórnina án þess að eiga um það samtal eins og ábyrgum flokki hefði sæmt. Það voru mikil vonbrigði, því fjölmörg mál munu nú frestast eða falla niður, til tjóns fyrir fólkið í landinu og óvissa skapast á mörgum sviðum. Það er nefnilega stórmál að stýra landi og til margra atriða að líta.
Nú eru að koma kosningar. Við göngum óhikað og bjartsýn til þeirra, þar sem við Sjáfstæðismenn munum sækjast eftir umboði til að halda áfram að bæta samfélagið og lífskjör allra. Ég er meira en klár í þá baráttu og það samtal.