Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að tíst Smára McCarthy þingmanns Pírata hafi skaðað ímynd Íslands. Undanfarna daga hafi utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands unnið að því að leiðrétta rangfærslur erlendis um ástæður stjórnarslitanna hér á landi og mál tengd uppreist æru.
Sagði Guðlaugur Þór í þættinum Bítið á Bylgjunni nú í morgun að umfangið sé mikið, sér í lagi á samfélagsmiðlum og það verði erfitt að leiðrétta allt:
Menn hafa verið í hlutum eins og að leiðrétta það, fáránlega hluti, eins og að uppreist æru þýði ekki sakaruppgjöf eða að sakaskrá eyðist út og að forsætisráðherra sé ekki að náða dæmda níðinga og þar fram eftir götunum. Þetta er það sem hefur farið á flug og það gerist ekki af sjálfu sér,
segir Guðlaugur Þór. Hann segir eitt að takast á í stjórnmálum hér á Íslandi en það þurfi ávallt að segja satt og rétt frá:
Menn eiga ekki að búa til hluti sem skaða ímynd Íslands, þá vísa ég sérstaklega til kjörinna fulltrúa. Eitt er það, með fullri virðingu fyrir fólki sem tvítar allt milli himins og jarðar, annað er það ef menn eru í einhverri stöðu þar sem hægt er að draga þá ályktun að viðkomandi viti hvað hann sé að segja og sé ábyrgur.
Tíst Smára McCarthy þingmanns Pírata vakti hörð viðbrögð hér á landi, sérstaklega eftir að Financial Times birti tístið.
Iceland’s Jimmy Savile case: our PM, who was in the Panama Papers, has hid for two months his father’s support for a pedophile’s clemency.
— Smári McCarthy (@smarimc) September 14, 2017
Sjá einnig: Erlendir fjölmiðlar slá falli stjórnarinnar upp sem máli tengdu hneyksli vegna barnaníðs
Sjá einnig: Spjótin standa á Smára McCarthy: „Níðingur“ sem eigi ekkert erindi á Alþingi
Smári svaraði fyrir ummælin í gær, sagði hann að nú væri komin ógeðfelld umræða í gang þar sem tístið hans væri rangtúlkað á þann veg að hann væri að væna Bjarna Benediktsson forsætisráðherra við einhvern viðbjóð, sem hann myndi aldrei gera. Smári segir að hann hafi verið að lýsa ástandinu eins og það kom honum fyrir sjónir:
Því meira sem kemur í ljós um atburðarásina, því betri verður samlíkingin. En vissulega var þetta ófullkomin samlíking, eins og allar samlíkingar eru, og ég skal viðurkenna að þetta var stuðandi. Hins vegar kemur það úr ansi harðri átt að valinkunnir menn séu farnir að klína álitshnekki Íslands á erlendri grundu á mig. Þeir mega eiga þennan skít sem gerðu hann.
Sjá einnig: Smári svarar fyrir Jimmy Savile ummælin: „Ófullkomin samlíking“
Guðlaugur Þór segir að margir stórir fjölmiðlar erlendis hafi birt rangar upplýsingar, utanríkisráðuneytið hafi ekki spurt hvaðan upplýsingarnar komi, áherslan sé á að leiðrétta rangfærslur. Hann segir að tíst Smára hafi ekki hjálpað til við að leiðrétta rangfærslurnar:
Það er langur vegur frá, svo maður noti diplómatískt orðalag. Mér hefði fundist meiri bragur á því að hann hefði nálgast þetta með öðrum hætti,
segir Guðlaugur Þór. Varðandi það að Smári sjái ekki eftir að hafa notað mál barnaníðingsins Jimmy Savile, sem talið er að hafi misnotað kynferðislega meira en 500 manns, þar á meðal börn, á 50 ára tímabili, sem samlíkingu segir Guðlaugur:
Það fannst mér vont. Undirliggjandi eru auðvitað mál sem öllum Íslendingum, held ég að ég geti fullyrt, finnst einstaklega óhugnanleg. Og þetta er eitthvað sem við sem þjóð þurfum að fara í gengum að ræða þau mál. Refsingar, sem ég tel vera of veikar, og þessi fáránlegu lög um uppreist æru. En það verður að tala um þessi mál út frá staðreyndum. Og það er stóralvarlegt ef menn eru að ýja að því með einhverjum hætti að aðilar hafi hagað sér með þessum hætti, sem er eitt alversta dæmið um þennan óhugnað. Þetta var alveg skelfilegt mál.
Guðlaugur Þór segir að það segi sig sjálft að tíst Smára hafi skaðað ímynd Íslands:
Það vita miklu fleiri hvað Ísland er en Bjarni Benediktsson og stjórnmálamenn í öllum löndum koma og fara. En ef menn eru að tengja þetta með þessum hætti, það sér það hver maður hvernig það lítur út.