Eggert Valur Guðmundsson skrifar:
Þessar nýjustu hugmyndir um uppbyggingu á miðbæjarreitnum á Selfossi, sem hafa verið kynntar og verið í umræðunni að undanförnu hafa margar hliðar. Annars vegar er samningur sem meirihluti D lista samþykkti fyrir stuttu við Sigtún þróunarfélag, og hins vegar deiliskipulagið sjálft.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn samningi um verkefnið við Sigtún þróunarfélag, vegna þess einfaldlega að við töldum samkomulagið ekki gott fyrir sveitarfélagið, þrátt fyrir þá fyrirvara sem í samningnum eru. Hér er verið tala um milljarða fjárfestingu sem við kjörnir fulltrúar höfum ekkert séð um hvernig muni verða fjármögnuð.
Einnig finnst mér ámælisvert af meirihluta bæjarstjórnar sem er að keyra þetta breytta skipulag í gegnum kerfið, að ekki hafi verið framkvæmt verðmat af hlutlausum aðilum á þeim lóðum sem eigendurnir ( íbúar sveitafélagsins) eru að leggja til þessa verkefnis. Svo má nefna að það er tiltekið í aðalskipulagi Svf Árborgar að leitast skuli við að hver byggðarkjarni sveitarfélagsins skuli njóta sinna sérstöðu, eftirlíking á gömlum húsum sem stóðu hingað og þangað um landið getur að mínum dómi seint fallið undir sérstöðu Selfossbæjar.
Í ljósi þess hve þessi áform hafa verið umdeild, lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu á síðasta fundi bæjarstjórnar, um að málið yrði sent til íbúana til ákvörðunar í almennri íbúakosningu. Niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu var sú að meirihluti Sjálfstæðisflokksins með aðstoð bæjarfullltrúa Framsóknarflokksins kolfelldu tillöguna.
Það er mín skoðun að svona mál eigi vel heima í almennri kosningu og þarf alls ekki að vera flókin framkvæmd. Ég er talsmaður þess að uppbygging hefjist á þessu svæði og við höfum í dag gildandi skipulag sem almenn sátt var um á sínum tíma. Ég hef ekki góða tilfinningu fyrir þessu Sigtúnsverkefni, og óttast að þetta muni að lokum enda í fanginu á íbúum sveitarfélagsins.
Birtist fyrst í Suðra. Smelltu hér til að lesa blaðið.