Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness veltir fyrir sér í ljósi þess að kosið verður til Alþingis þann 28. október næstkomandi hver kosningaloforð flokkanna verði. Hvort Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð muni lofa því að hækka álögur á bensín um 9 krónur á lítrann og dísilolíu um 22 krónur sem gerir það að verkum að neysluvísitalan hækki með þeim afleiðingum að verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 3 til 4 milljarða?
Spyr Vilhjálmur í pistli á Pressunni í dag hvað Vinstri grænir ætli að gera í ljósi þess að Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins fagnaði þessum skattahækkunum:
Ætla þessir flokkar t.d. að standa við að lækka vaxtabætur og barnabætur eins og fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir?,
spyr Vilhjálmur:
Svo spyr maður sig hvaða stjórnmálaflokkar ætla að gera atlögu að samningsfrelsi launafólks með því að koma á Salek samkomulagi? Ég spyr að þessu í ljósi þess að 25% af stefnuræðu forsætisráðherra um daginn fór í að tala um að vinnumarkaðslíkanið á Íslandi væri ónýtt og ýjaði að því að mesta ógnin við stöðugleika væri íslensku launafólki að kenna.
Segir Vilhjálmur að nú þurfi að fá það á hreint hvaða stjórnmálaflokkar ætli að taka á eftirfarandi málum sem lúta að hagsmunum verkafólks, heimilanna og þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi:
1. Afnema verðtryggingu á neytendalánum til heimila og einstaklinga.
2. Taka á okurvöxtum fjármálakerfisins.
3. Taka upp þrepaskiptan persónuaflátt þar sem lágmarkslaun og bætur verða skattlaus.
4. Fækka lífeyrissjóðum og að sjóðsfélagar kjósi alla stjórnarmenn þeirra (lýðræðisvæða lífeyrissjóðskerfið).Með öðrum orðum, hvaða stjónmálaflokkar ætla að standa með alþýðu þessa lands og láta hagsmuni heimila og einstaklinga ná fram fyrir sérhagsmuni fjármálakerfisins og þeirra sem eiga fjármagnið í þessu landi?