Bjarni Benediktsson forsætirsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins fór á fund með Guðna Th. Jóhannessyni og lagði til að þing verði rofið og að boðað verði til kosninga í 28. október næstkomandi. Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis mun svo í dag funda með formönnum þingflokkanna til að ræða framkvæmd þingsins fram að kosningum. Flokkar eru þegar byrjaðir að setja sig í stellingar fyrir komandi kosningar þó svo að kosningabaráttan er ekki hafin fyrir alvöru. Þó eru margir byrjaðir að leiða hugann að niðurstöðum kosninganna, þar á meðal Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi og fyrrverandi ritstjóri sem spáir því að Sjálfstæðisflokkurinn muni leiða næstu ríkisstjórn:
Að öllu óbreyttu sé ég ekki fram á annað en að Sjálfstæðisflokkurinn leiði ríkisstjórn eftir kosningar. Ekki vegna þess að hann sé að styrkjast heldur fyrst og fremst vegna þess að hinir flokkarnir eru í engu stuði,
segir Gunnar Smári á Fésbók. Hann segir að Viðreisn og Björt framtíð geti bara minnkað þar sem stjórnarsamstarfið hafi farið svo illa með þá flokka að ríkisstjórnarslit af prinsippástæðum muni ekki laga stöðuna nema lítillega:
„Píratar munu ekki stækka, mögulega minnka. Þetta hefur ekki verið gott kjörtímabil fyrir þá, fór mest í innbyrðis átök þótt þeir hafi heldur braggast síðustu vikurnar. Framsókn og Samfylkingin geta bætt við sig manni eða tveimur, eftir sögulegt fall í síðustu kosningum, en hafa enga möguleika á að lyfta sér til flugs vegna innri meina.“
Vinstri grænir hafa bætt við sig fylgi í skoðanakönnunum að undanförnu, Gunnar Smári segir það varasamt að telja sig eiga inni kosningasigur:
VG telur sig eiga inni kosningasigur en sagan sýnir að það er varasamt fyrir flokka að telja sig eiga eitthvað inni hjá kjósendum. Vandi VG er að flokkurinn nær illa út fyrir kjörlendi sitt, hefur einsleita forystusveit sem talar fyrst og fremst inn í eigin rann.
Eini flokkurinn sem sé á flugi um þessar mundir er Flokkur fólksins:
„Eini flokkurinn sem er á flugi er Flokkur fólksins, sem er í grunninn hægri flokkur eins og andlegir tvíburar hans í nágrannalöndunum (norski Framfaraflokkurinn, danski Þjóðarflokkurinn, breski Sjálfstæðisflokkurinn, franska Þjóðfylkingin).“
Segir Gunnar Smári að eftir kosningar verði tvö stjórnarform líklegust:
Annars vegar Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Flokkur fólksins. Hins vegar Sjálfstæðisflokkur og VG (ef þessir flokkar fá sæmilega útkomu). Mikið verður gengið á Framsókn og VG hvort þeir útiloki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar en eins og venjan er í íslenskum stjórnmálum munu þessir flokka fimlega víkja sér undan að svara.