„Við féllumst í faðma þegar við kvöddumst, ég og formaður Bjartrar framtíðar og umhverfisráðherra, og þökkuðum fyrir gott samstarf og heiðarlegt. Og þurftum að sætta okkur við það að við litum á þennan atburð ólíkum augum og svo heldur lífið áfram,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á blaðamannafundi á Bessastöðum sem lauk nú fyrri stuttu. Kosningar verða 28. október næstkomandi.
Bjarni ítrekaði furðu sína á þróun mála og ákvörðun Bjartrar framtíðar að slíta stjórnarsamstarfinu. Hann tók undir Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands um að mikilvægt sé að endurnýja traust og festu í stjórnmálunum. Bjarni sagði að staðan í dag væri framhald á stöðunni eftir síðustu kosningar þar sem erfitt var að mynda ríkisstjórn. Sagði hann að „brestir í smáflokkakerfinu“ hafi valdið því að upp úr slitnaði í ríkisstjórnarsamstarfinu:
Veikleiki stjórnarinnar var kannski frá upphafi á vissan hátt. Það voru erfiðleikar frá upphafi frá síðustu kosningum,
sagði Bjarni. Hann setti svo tóninn fyrir komandi kosningabaráttu þegar hann var spurður hvort það væri ekki of stuttur tími til kosninga til að smærri framboð geti skipulagt kosningabaráttu:
Við erum með fullt af stjórnmálaflokkum sýnist mér, atkvæðin eru að dreifast gríðarlega mikið miðað við það sem áður var. Mín skoðun er sú að það hvernig okkur auðnist að koma betri stjórnfestu á að nýju á Íslandi muni að lang mestu leyti ráðast af því hvernig kjölfestan er í stjórninni. Mér persónulega hugnast ekki margra flokka stjórnarsamstarf upp á fjóra – fimm – sex flokka, ég held að saga sýni okkur að það verði ekki farsælt. Ég vil sjá að nýju stjórnarsamstarf sem byggir á tveimur sterkum flokkum. Ég held að það kosti minnstar málamiðlanir milli flokka og ef slík stjórn verður í boði eftir kosningar þá verði það lang sterkasti kosturinn, fyrsti kosturinn í mínum huga er að mynda tveggja flokka stjórn. Ég held hins vegar að margt segi manni að, eins og sakir standa, sé það ólíklegt. Þetta getur breyst fram að kosningum, þetta er eitthvað sem kjósendur verða að huga að.