Þegar þú lítur til baka hvernig minnist þú árana þegar þú varst borgarstjóri?
„Fyrir mér voru þetta tvo tímabil. Fyrstu tvö árin og seinni tvö árin. Það sem var mér persónulega erfitt var að fyrstu jólin dó mamma og það hafði djúpstæð áhrif á mig. Pabbi dó 2008. Dauði mömmu var eðlilega áfall fyrir mig en ég var ekki í aðstæðum til að syrgja hana. Það varð að huga að fjárhagsáætlun borgarinnar og fleiri hlutum sem vissulega voru mikilvægir og alvarlegir en skiptu mig samt ekki jafn miklu máli og það að mamma var ekki lengur til.“
Þetta kemur fram í viðtali Kolbrúnar Bergþórsdóttur í helgarblaði DV. Þar ræðir Jón um tímann sem hann var borgarstjóri og arfleið sína.
„Ég var bara búinn að vera borgarstjóri í nokkra mánuði þegar þetta gerðist. Fyrstu tvö árin voru erfið en seinni hlutinn var miklu auðveldari. Þá var ég búinn að ná sterkari tökum á starfinu og kominn yfir þetta áfall.
Ég kom inn í stjórnmál sem ég hafði aldrei verið þátttakandi í og gerði mér litla grein fyrir stjórnmálamenningu á Íslandi og stjórnkerfinu. Það var ákveðið sjokk að koma allt í einu inn á vettvang þar sem ég var að vinna með og takast á við stjórnmálafólk og skipulagða stjórnmálaflokka.
Ég get alveg skilið að það fari fyrir brjóstið á fólki sem vinnur í stjórnmálum og hefur þau jafnvel að ævistarfi þegar allt í einu birtist þar jólasveinn eins og ég sem augljóslega er utanveltu. Það er skiljanlegt að einhverjum svíði það. Mér fannst spennandi tækifæri að prófa þetta og takast á við verkefni sem ég hafði aldrei tekist á við áður.
Á þessu tímabili lærði ég ótrúlega mikið varðandi rekstur. Ég fór í mikla og flókna fjármálavinnu sem ég hef svosem ekki tekist mikið á við áður. Mér fannst það mikil áskorun. Ástandið var gríðarlega snúið eftir hrunið, ekki síst varðandi Orkuveituna. Þarna voru fundir sem náðu tuttugu klukkutímum. Ég man eftir dögum þar sem fólk var með dýnu og svefnpoka í Ráðhúsinu. Það lá yfir skjölum og skýrslum og lagði sig í klukkutíma og hélt síðan áfram að vinna.“
Hver er arfleifð þín sem borgarstjóri?
„Ég hef velt því fyrir mér. Áhersla á virk og gagnvirk samskipti var nokkuð sem ég notaði mjög mikið. Ég vildi nýta samskipti og reynslu, þekkingu og innsæi fólks í heildræna vinnu frekar en að taka einstrengingslegar ákvarðanir. Þetta er þjónandi forysta sem er aðferð sem ég hef alltaf notað þegar ég er að vinna, bæði í leikhúsi og sjónvarpi. Maður skapar liðsheild þar sem unnið er á jafningjagrundvelli. Þótt einstaka einstaklingar taki ábyrgðina og endanlegar ákvarðanir þá hafa allir rétt til að segja sína skoðun og fá að eiga sinn hlut í því sem gert er. Mér hefur alltaf fundist þessi aðferð virka langbest. Það er stór munur á að vinna með fólki eða láta það vinna fyrir sig. Mér finnst samvinna einfaldlega skemmtilegri.
Ég held að ég hafi líka sýnt það að venjulegt fólk megi skipta sér af stjórnmálum án þess að hafa fengið sérstaka í skólun í því.
Það er reyndar stór munur á afstöðunni til mín hér og í útlöndum. Það er merkilegt að í Austurríki, Þýskalandi og Tékklandi er ég álitinn einhver lýðræðisspaði og talinn hafa átt þátt í að skapa nýja vinstrið, en það eru reyndar pælingar sem ég næ ekki alveg. Nýlega var verið að bjóða mér til Búdapest og þar er fólk ekki að fara í launkofa með að því finnst Besti flokkurinn vera mitt afrek. Í Slóveníu er fólk að stofna flokk vegna áhrifa frá Besta flokknum.“