Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra segir stöðu Framsóknarflokksins djöfullega og vill að núverandi forysta flokksins íhugi alvarlega stöðu sína í ljósi slæmrar stöðu flokksins.
Í ályktun Framsóknarfélags Mosfellsbæjar segir að staða Framsóknarflokksins sé óviðunandi, flokknum hafi mistekist að vinna sér traust kjósenda og beðið afhroð í síðustu Alþingiskosningum. Niðurstaða síðustu kosninga var sú versta í sögu flokksins, en flokkurinn tapaði 11 af 19 þingmönnum sínum. Forysta flokksins hafi ekki fengið umboð til stjórnarmyndunar og flokkurinn er næst minnsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi í dag. Slíkt sé óásættanlegt. Nú sé svo komið að flokkurinn sé orðinn næst minnsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi, og mikilvægt sé að núverandi forysta Framsóknarflokksins íhugi alvarlega hvort hún sé fær um að leiða flokkinn áfram, segir í ályktuninni.
Gunnar Bragi deildi ályktuninni á Fésbók og sagði:
„Eðlileg krafa í ljósi staðreyndanna sem þarna eru taldar upp.“
Óánægja kraumar innan flokksins
Í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun sagði hann töluverða óánægju krauma í flokknum eftir að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni var komið úr formannsstólnum síðasta haust:
Það var farið í ákveðna vegferð á síðasta flokksþingi, þar sem að þeir sem fyrir henni stóðu töldu að flokkurinn myndi uppskera vel, en við sáum nú ágætlega hvernig það gekk allt saman,
sagði Gunnar Bragi:
Það er fyrst og fremst það sem margir eru ósáttir við og það er nú bara þannig að innan flokksins er töluverð óánægja.
Segir Gunnar Bragi stöðuna innan flokksins djöfullega:
Þetta er eitthvað sem við höfum svo sem séð áður og er alveg djöfullegt því flokkurinn á að vera valkostur fyrir alla.
Segir hann það blasa við að skipta þurfi um forystu í flokknum, það sé skortur á baráttumálum og staðan sé algjörlega óásættanleg. Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins verður haldinn 20. maí næstkomandi og svo verður aftur flokksþing þar sem allir verða í framboði, í Þjóðarpúlsi Gallup frá 31. mars mælist flokkurinn með 10,5% fylgi sem er sama fylgi og flokkurinn mældist með í lok janúar. Gunnar Bragi hyggst ekki bjóða sig fram til formanns, aðspurður hvort hann vilji að Sigmundur Davíð verði aftur formaður segir hann:
Ég hef alltaf stutt Sigmund Davíð það er alveg ljóst, en ég held að það sem við þurfum að sjá hins vegar er bara hvort núverandi forysta ætlar sér að sitja áfram að óbreyttu og ef að það er, þá einfaldlega förum við í gegnum þennan miðstjórnarfund og ræðum málin.