Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins biðlar til Gunnars Smára Egilssonar, Ragnars Önundarsonar og Mikaels Torfasonar um að bíða með að stofna Sósíalistaflokk Íslands og gera tilraun til að styrkja Samfylkinguna. Líkt og Eyjan greindi frá í morgun stendur til að stofna Sósíalistaflokk Íslands formlega 1.maí næstkomandi. Nú fyrir stuttu birti Oddný eftirfarandi færslu inni í hópi Sósíalistaflokks Íslands á Fésbók:
Kæru Gunnar Smári Egilsson, Ragnar Önundarson, Mikael Torfason og þið hin sem viljið stofna nýjan flokk til vinstri. Ég bið ykkur um að bíða aðeins og gera þá tilraun að styrkja Samfylkinguna jafnaðarmannaflokk Íslands með kröftum ykkar. Samfylkingin er með góða innviði út um allt land þar sem borin er uppi nákvæmlega sama stefna og þið boðið. Ekki skemmta skrattanum enn einu sinni með stofnun flokks á vinstrivængnum. Sameinuð erum við sterk en sundruð höfum við lítil áhrif og höfum ekki afl til að hreyfa við stóru málunum sem hugsjónir okkar brenna fyrir. Verum skynsöm, verum saman og göngum skipulögð til verka!