Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra segir að Framsóknarflokkurinn sá á vondum stað og það komi ekki á óvart að það séu hugmyndir á lofti um að stofna nýjan flokk.
Líkt og Eyjan greindi frá í síðustu viku þá sagði Gunnar Kristinn Þórðarson stjórnsýslufræðing og félagi í Framsóknarflokknum að hann væri einn þeirra sem vilji eindregið að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrum formaður og forsætisráðherra yfirgefi Framsóknarflokkinn og stofni nýjan flokk. Sagðist Gunnar Kristinn ekki vera einn á slíkri skoðun innan flokksins, þvert á móti sé flokkurinn klofinn og mörgum tryggum flokksmönnum sé misboðið.
Nú liggur fyrir að Gunnar Bragi hefur verið spurður hvort hann tengist slíkum hugmyndum, segir hann á Fésbókarsíðu sinni:
Ég hef verið spurður hvort ég tengist hugmyndum um að stofna nýjan flokk. Það geri ég ekki.
Framsóknarflokkurinn er illa staddur eftir verstu kosningaúrslit í sögu flokksins og er nú næst minnsti stjórnarandstöðu flokkurinn. Líklega hefur flokkurinn í seinni tíð ekki verið á jafn vondum stað.
Svona hugmyndir koma því ekki á óvart.