Donald Trump vill funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta á fyrstu vikum forsetatíðar sinnar sem hefst næstkomandi föstudag. Vill hann funda með Pútín í Reykjavík líkt og Ronald Regan gerði með Mikhail Gorbachev árið 1986. Þetta kemur fram í forsíðufrétt Sunday Times.
Þar er haft eftir breskum embættismönnum að fyrsti fundur Trump með erlendum þjóðarleiðtoga verði með Pútín og horft sé sérstaklega til Reykjavíkur sem fundarstað. Markmið fundarins verður fyrst og fremst að bæta samskipti Vesturlanda við Rússa og hefur Trump í hyggju að ræða við Pútín um fækkun kjarnavopna, sem var einnig á dagskrá í Höfða undir lok kalda stríðsins. Forsetinn verðandi sagði í nýlegu viðtali við Wall Street Journal að hann hyggist ekki afnema viðskiptaþvinganir sem Obama setti á Rússa fyrst um sinn, en hann sé tilbúinn að starfa með Rússum og Kínverjum. Það komi svo í ljós á fundinum, hvort hann muni létta af þvingununum og tryggja samvinnu Rússa í baráttunni gegn öfgaöflum.
Í frétt Sunday Times er einnig haft eftir embættismönnum í rússneska sendiráðinu í Lundúnum að það sé líklegt að Rússar samþykki fundarboðið. Theresa May forsætisráðherra Bretlands undirbýr einnig heimsókn í Hvíta húsið, er áformað að hún fundi með Trump í lok febrúar.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is