Af þeim höfundum sem ég hef lesið og eru orðaðir við Nóbelsverðlaunin finnst mér Ismail Kadare verðugastur. Kadare er albanskur og býr sitt á hvað í Albaníu og Frakklandi. Kadare er einn af frumlegustu rithöfundum sem nú er uppi – og hann hefur frá miklu að segja. Er frá dularfullri þjóð með dularfulla sögu og dularfullar hugsanir.
Ein af bókum Kadares fjallar um fræðimenn sem fara í albönsk fjöll til að leita að söngvurum sem þylja kvæði í anda Hómers, löng söguljóð sem þeir kunna utanað. Hún gerist í kringum 1930, Kadare er að leika sér með kenningar um munnlega geymd sem voru vinsælar um tíma. Bókin heitir á ensku The File on H – H er ekki minni maður en sjálfur Hómer.
Önnur bók eftir hann fjallar um fall manns sem átti að verða arftaki hins mikla leiðsögumanns – Envers Hoxha. Og auðvitað fellur fjölskylda hans með honum líka. Allir þurfa alltaf að hafa vara á sér; hvert orð, hver svipur, hver hugsun getur steypt manni í glötun.
Sú þriðja sem ég hef lesið eftir Kadare segir frá stórri og dimmri höll þar sem öllum draumum í ríkinu er safnað saman. Hún er mjög í anda Kafka, en um leið metafóra um hina alltumlykjandi alræðisstjórn sem Albanía bjó við. Kadare er höfundur sem vandist við að geta ekki sagt hlutina beint út. Stundum gerir það bækur forvitnilegri.
Albanía var kannski akkúrat staðurinn til að geta af sér annan Kafka.
Á morgun kemur svo í ljós hvort Kadare fái verðlaunin, hann er talinn líklegur en hann hefur margoft verið nefndur sem væntanlegur verðlaunahafi. Hann er fæddur 1936. Enn eitt árið er Japaninn Murakami talinn einna líklegastur – en maður les líka að í ítölsku blaði sé Jón Kalman Stefánsson nefndur.