Ríkisstjórnin hefur stóran og nokkuð samhentan meirihluta á þing. Fáir þingmenn munu áræða að víkjast undan valdi meirihlutans, ólíkt sem var á tíma síðustu stjórnar.
Ríkisstjórnin getur því farið sínu fram nokkuð átakalaust. Hún getur sleppt því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og hún getur leyft sér að breyta friðlandsmörkum við Þjórsárver.
Það breytir litlu þótt utanríkisráðherra hafi orðið uppvís að því að hafa dálítið furðulegar hugmyndir um alþjóðastjórnmál í Kastljósi.
Þing kemur aftur saman á morgun. Það verður heldur tilþrifalítið – fyrri stjórnarflokkar, VG og Samfylking, eru ennþá gjörsamlega lemstraðir eftir kosningarnar í vor. Í báðum flokkum krauma undir heift og sárindi sem ná stundum á yfirborðið, það má greina á bókum Össurar Skarphéðinssonar og Steingríms J. Sigfússonar og viðbrögðum við þeim.
Það er helst að Píratar séu að sprikla í stjórnarandstöðunni. Það eru eiginlega þeir sem draga vagninn.
Í lok maí eru svo sveitarstjórnarkosningar. Eins og greint hefur verið frá á þingið að fara í frí í tæka tíð, svo þingmenn geti beitt sér í kosningabaráttunni. Samt er það svo að sveitarstjórnamál verða sífellt „ópólitískari“. Hefðbundin stjórnmálabarátta á varla við á þeim vettvangi lengur. Það er hægt að gera ágreining um bílastæði og einstaka skipulagsmál, en annars ríkir nánast algjör sátt um hverju sveitarfélög eiga að sinna.
Ólíklegt er að sveitarstjórnakosningarnar veki mikinn áhuga, enda hefur þátttaka í slíkum kosningum minnkað jafnt og þétt eins og sjá má á þessu línuriti frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 2010 var hún 73,5 prósent