Tveir af hinum frábæru pistlahöfundum á Eyjunni færa okkur heim nöturleg sannindi á þessum laugardegi.
Það er í fyrsta lagi Stefán Ólafsson sem hrekur lið fyrir lið þá dellu að hér hafi menn verið að gera kjarasamninga að skandínavískri fyrirmynd. Því fer öldungis fjarri eins og Stefán sýnir:
Skandínavar hafa mun hærri laun en Íslendingar
Skandínavar vinna mun skemmri vinnutíma en Íslendingar
Kaupmáttur Skandínava lækkaði ekki um 20% í fjármálakreppunni eins og gerðist á Íslandi
Skandínavar þurfa því ekki að vinna upp mikið kaupmáttartap eins og við
Skandínavar semja gjarnan um hóflegar kauphækkanir, enda ásættanlegt í því kjarasamhengi sem þeir búa við
Kaup í Skandinavíu hækkar þó almennt um 2% umfram verðlag á ári hverju
Skandínavar búa við stöðugri gjaldmiðla en Íslendingar, sem skapar mun meiri stöðugleika og minni verðbólguþrýsting
Skandínavar þurfa ekki að rýra kaupmátt til að ná stöðugleika. Þeir hafa alvöru gjaldmiðil og festu í stjórnsýslu sem því skilar.
Stefán segir að í raun sé það áróður að halda því fram að þessir kjarasamningar séu sérstaklega skandinavískir.
Í þessu samhengi verður varla framhjá því horft, að allt þetta tal um að það sé sérstaklega skandínavískt að semja um kaupmáttarrýrnun er einfaldlega áróður og ósannindi – í besta falli misskilningur.
Skandínavar leggja ábyrgðina á stöðugleika ekki einhliða á launþega. Þeir þvinga því ekki fram kaupmáttarskerðingar til að ná fram stöðugleika. Þeir fara aðrar leiðir til þess.
Í öðru lagi er það Andri Geir Arinbjarnarson sem fjallar um hvernig barist er gegn verðbólgudraugnum með plástrum, eins og hann orðar það. Eins og bent hefur verið á hér á síðunni er þarna á ferðinni aðferðir sem hafa áður verið notaðar og reyndust duga heldur skammt. Þetta er nefnilega endurtekið efni. Andri skrifar:
„Nú reyna menn á nýrri öld og ætla að koma að draugnum sofandi þar sem hann mókir eftir 10% hækkunn krónunnar gagnvart dollara á síðasta ári. En þó gjaldeyrishöft hefti aðgang að fóðri fyrir verðbólguna nærist hún á fleiru. Vextir fara hækkandi og skuldug fyrirtæki þurfa peninga til að borga okurlán í íslenskum krónum. Þá peninga sækja þau til almennings með því að hækka verð, þetta má kalla skuldaverðbólgu. Og svo er yfirleitt stærsti hluti verðhækkana fólginn í húsnæði. Fasteignir og leiguverð hækkar í skjóli hafta. Þannig eru höftin tvíbennt sverð, draga úr og kynda verðbólguna á sama tíma.
Traust til stjórnmálamanna og samstaða sveipuð auglýsingaskrumi eru veikir plástrar. Í besta falli er þetta skammtímalausn sem reddar málum fram yfir sveitarstjórnarkosningar. Vandamálið er sem fyrr algjört vantraust á íslensku krónunni.
Það er aðeins ein langtímalausn til á þeim vanda og hún felst í nýjum alþjóðlegum gjaldmiðli.“