Larry Eliot skrifar í Guardian um svokallaða zero hour samninga sem eru farnir að tíðkast á vinnumarkaði á Bretlandi.
Samningarnir fela einfaldlega í sér að vinnandi fólk hefur nákvæmlega engin réttindi. Við erum í raun komin aftur fyrir tímann þegar verkalýðsfélög voru stofnuð.
Þetta var það sem Margaret Thatcher lét sig dreyma um. Því verður ekki neitað að þetta er mjög sveigjanlegur vinnumarkaður.
Atvinnurekendur geta kallað fólk til vinnu þegar þeim hentar en þeir eru ekki skuldbundnir til að tryggja þeim neinar fastar vinnustundir, það má vísa fólkinu burt þegar henta þykir, það nýtur ekki lífeyrisréttinda né neins konar trygginga.
Það er talað um að í Bretlandi séu 250 þúsund manns á vinnumarkaði sem starfi á þessum kjörum. Meðal þeirra sem nota þá er íþróttaverslanakeðjan Sports Direct sem hefur verið í sviðsljósinu vegna þessa. Níutíu prósent af starfsmönnum keðjunnar eru á zero hour samningum.
Og svo er annar vinnuveitandi sem líka hefur orðið uppvís að þessu athæfi.
Það er Buckingham-höll, eða fyrirtækið sem rekur höllina fyrir drottninguna og slekti hennar.
Eliot segir að Karl Marx hefði borið kennsl á þetta – hann hefði séð eins og er að þetta sé hreint arðrán af þeirri tegund sem varð til þess að verkalýðsfélög voru upphaflega stofnuð.