

Lemúrinn segir frá því hvers vegna geimferðir í Appoloáætlun Bandaríkjamanna voru ekki settar á svið.
Það er ein af lífsseigari samsæriskenningum seinni tíma að þetta hafi allt verið gert í stúdíói.
Með fréttinni er forsíða Vikunnar frá árinu 1969.
Þar má sjá Neil Armstrong geimfara við iðju sem var nánast eins framandleg á Íslandi þessara ára og tunglferðir.
Hann er að baka pitsu.
Á þessum árum vissi ég meira um geimferðir en pitsur. Smakkaði ekki þessa dásamlegu fæðu fyrr en 1973 – í fyrstu utanlandsferð minni til Kaupmannahafnar og Skánar.
Og fyrsti alvöru pitsustaðurinn á Íslandi opnaði ekki fyrr en 1979, það var Hornið í Hafnarstræti, og markaði algjör tímamót – næstum eins og tunglferðir.
