
Friðrik Jónsson, hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum, skrifar grein í Fréttablaðið í gær sem hann nefnir Eignavandann. Greinin bendir á veikleikana í íslenska efnahagsbatanum og gallana við þá leið að ábyrgjast allar innistæður í bönkum á meðan skuldarar þurftu að taka á sig þungar byrðar. Greininni líkur á svofelldum orðum:
„En tíminn er líkast til að renna út hvað varðar róttækar aðgerðir í efnahagsmálum. Kreppan er búin segja stjórnvöld og stjórnarandstaðan tekur hálfgildings undir og heldur því fram að hún væri ennþá meira búin ef hún væri við völd…!
En áfram lifa þær í kerfinu, ósjálfbæru peningaeignirnar í íslenskum krónum í höndum aflandskrónueigenda, jöklabréfaeigenda, eigenda ríkisskuldabréfa, lífeyrissjóða og húsnæðisbréfa. Einblínt er á dagsgengi krónunnar í viðjum hafta og ímyndað sér að þessar froðueignir séu sambærilegar við peningaeignir í alvöru gjaldmiðlum. Tímabundin túristasveifla nappar Seðlabankann sofandi á verðinum og ímyndunarveikin nær hámarki í hærra gervigengi löngu ónýts gjaldmiðils.
En það kemur að skuldadögum. Hvaða svigrúm verður til róttækra aðgerða þá?“