

Það sem ég sá af opnunarhátíð Ólympíuleikanna í gærkvöldi sýndist mér vera afar vel heppnað.
Þetta virkaði frjálslegt og glatt, annað en hin hálf-fasíska opnunarhátíð í Peking fyrir fjórum árum.
Áréttar að Ólympíuleika á ekki að halda nema í lýðræðisríkjum.
Það var mikið gert úr breskri tónlist – sem hefur verið mjög fyrirferðarmikil síðan á tíma Bítlanna. Það var snjallt.
Það fór líka vel á því að á hátíðinni var vísað í gildi mannréttinda. Meðal þeirra sem báru fána Ólympíuleikanna inn á völlinn var baráttufólk fyrir mannréttindum, eins og Doreen Lawrence, sem berst gegn rasisma, Sally Becker, sem liðsinnir börnum og konum sem hafa orðið fórnarlömb stríðsátaka í Bosníu og Kosovo, Sami Chakrabarti, sem er frumkvöðull í mannréttindasamtökunum Liberty, og hljómsveitarstjórinn og píanóleikarinn Daniel Barenboim, en hann stjórnar West-East Divan hljómsveitinni sem samanstendur af tónlistarmönnum frá Ísrael og Palestínu.
Mitt í gleðinni mátti þó sjá eitthvað daufgerðasta fólk sem um getur – bresku konungsfjölskylduna. Það er sífelld ráðgáta hvers vegna Bretar eru að rogast með þetta lið – og borga undir rassinn á því.
Það er svo alltaf gaman að sjá „þjóðanna safn“ ganga inn á Ólympíuleikvang undir fánum. Þarna sér maður glöggt fjölbreytileika tegundarinnar. Afturhaldskarl sem er í miklu dálæti hjá Staksteinum Morgunblaðsins skrifaði í gær að við hinu versta væri að búast „af negra og múslima“, eins og það var orðað. Það er spurning hvort Staksteinar vitna í manninn að þessu sinni – á því eru reyndar miklar líkur, hann er einn besti liðsmaðurinn – en það vekur athygli að í hinni geysilega fjölmennu og glæsilegu sveit Bandaríkjanna voru „negrar“ áberandi fjölmennir.
