

Fræg þýsk kvikmynd heitir Der letzte Mann. Hún er eftir sjálfan F.W. Murnau, einn stórmeistara þöglu kvikmyndanna, og í aðalhlutverki er stórleikarinn Emil Jannings.
Myndin fjallar um karl sem er dyravörður á fínu hóteli. Hann gengst mjög upp í stöðu sinni, henni fylgir svellfínn einkennisbúningur. Þetta var á þeim árum að Þjóðverjar dýrkuðu einkennisbúninga.
Svo gerist það að hann er lækkaður í tign, hann er gerður að salernisverði. Þetta fer náttúrlega mjög illa með karlinn – og um það fjallar myndin. Í einu atriðinu situr karlinn í sæti sínu á salerninu, sofnar og lætur sig dreyma um fyrri dýrð, þegar allir heilsuðu honum (og einkennisbúningnum) af virðingu.
Nú er deilt um klósett á landsbyggðinni. Fólk þarf að ganga örna sinna þar eins og annars staðar – og ekki geta allir farið út í náttúruna til þess né vilja það.
Sjoppueigandi í Borgarfirði kvartar undan því að fólk troðist inn á klósettin hjá honum og gangi illa um.
Þetta má auðveldlega leysa með því að taka upp salernisverði, líkt og er til dæmis víða að finna í Þýskalandi. Þetta er fólk sem vakir yfir hreinum klósettum og fær fyrir það þóknun, hún er sjaldnast hærri en svona 30-50 sent – en sumir láta þó meira af hendi rakna, séu þeir ánægðir með þjónustuna.
Það er semsagt rétt hjá formanni Samtaka ferðaþjónustunnar að það er ekkert athugavert við salernisgjald.

Emil Jannings í Der letzte Mann.