
Laugavegurinn mun ekki líða undir lok þótt stöðumælagjöld verði hækkuð. Það er óþarfi að dramatísera hlutina svona. Laugavegurinn byggir hvort sem er mestanpart á þjónustu við ferðamenn núorðið – að vetrarlagi er hann heldur daufur, nema kannski um helgar.
En hækkun stöðumælagjalda er alveg óþörf.
Það er óvenju mikill fjöldi stöðumælavarða í Reykjavík og þeir eru mestanpart að eltast við sömu frekar fáu bílana. Þá sem eiga heima í miðborginni, gesti þeirra – og þann takmarkaða fjölda sem á erindi þar á skrifstofur eða þær fáu verslanir sem eftir eru.
Jú, þessu fólki er kannski ekki of gott að parkera í bílastæðahúsum. En það er samt ekki eins og við búum í milljónaborg. Það er alveg ástæðulaust vera með samanburð við þær. Miðbærinn er eins og lítið þorp. Við erum í raun að tala um bílastæði í fáeinum þorpsgötum.
Aðallega verður eftir meiru að slægjast fyrir stöðumælaverðina – sem stundum virðast vera fjölmennasti hópurinn sem er á ferli í bænum, allt upp í tveir til þrír á hvern ólöglega lagðan bíl. Stöðumælasjóður er stórt batterí og þarf á miklum tekjum að halda til að geta haldið áfram að þenjast út og ráða fleiri verði – hann á enn eftir að eflast við þessar hækkanir.