
Það er auðvelt að hræra í gruggugum potti þar sem er óbeit á flóttamönnum – stundum ber það stóran og ljótan ávöxt í pólitík. Það er líka vænlegt til árangurs að grauta þessu saman við óljósar hugmyndir um hættuna sem á að stafa af íslömskum hryðjuverkamönnum. Því miður. Skrif af þessu tagi hefðu ekki sést í Morgunblaðinu á tíma Matthíasar og Styrmis, en nú er önnur tíð. Það má líka minna á að Geir Haarde, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, áréttaði nokkuð frjálslynda stefnu flokksins í útlendingamálum fyrir fáum árum.
Íslendingar vildu helst ekki taka við flóttamönnum í heimsstyrjöldinni síðari, gyðingum sem hingað komu var vísað burt – okkur til ævarandi skammar – þó settust nokkrir að og auðguðu íslenskt mannlíf og menningu. Um það fólk er talað með mikilli virðingu.
Heilu ríkin eru byggð flóttafólki, Bandaríkin, Ástralía, Kanada. Flóttamennirnir flúðu fátækt, kúgun og ofsóknir – stundum allt í senn. Frá Íslandi fóru á sínum tíma þúsundir manna til Kanada og Bandaríkjanna.
Flóttamennirnir sem nú eru á ferðinni og rekur stundum upp á Íslandsstrendur eru ekkert öðruvísi.
Þetta er fólk sem leitar betra lífs. Oft er þetta dugmeira fólk en þeir sem sitja eftir heima. Flest ríki eru þeim fjandsamleg, þeir þurfa að smygla sér yfir landamæri, ljúga um uppruna sinn, beita alls kyns brögðum. En tilgangurinn er yfirleitt ekki verri en sá að fá að setjast að á einhverjum stað, fá atvinnu, búa sér heimili.
Flóttamennirnir eru líklegir til að vinna erfiðustu og óþrifalegustu störfin í samfélaginu. Þannig uppfylla þeir vissulega þörf á Vesturlöndum. Börn þeirra munu leita sér menntunar og þriðja kynslóð verður aðlöguð. Þetta er gangur lífsins – hvað varðar íbúasamsetningu hafa ríki sjaldnast verið neinn endanlegur fasti, nema kannski staður eins og Ísland sem var einangraður í mörg hundruð ár en hefur nú sem betur fer opnast.