
Ódæðisverkið í Colorado vekur óþægileg hugrenningatengsl vegna þess að það er framið í kvikmyndahúsi þar sem verið er að sýna kvikmynd sem er full af tilgangslausu ofbeldi.
Ofbeldið í myndum eins og Batman er gengdarlaust – og þeir sem falla eru ekki síst saklausir borgarar, þeir sem standa álengdar. Við erum orðin vön að horfa á svonalagað, jú, svona er þetta bara, en innst inni finnst okkur þetta óþægilegt.
Í vinsælum kvikmyndum sem eru sýndar út um allan heim – líka börnum – fer fram stórfellt slátrun á saklausu fólki í nafni skemmtunar.
Kannski hefur glæpurinn ekki áhrif á aðsóknina á Batmanmyndina – vel má vera að hún aukist frekar en hitt – en hann beinir samt athygli okkar að því hvað öll þessi kvikmyndamorð eru í raun ógeðfeld og hvimleið.
Svo er það umræðan um byssueign í Bandaríkjunum. Nú er svo komið að næstum enginn málsmetandi stjórnmálamaður þar þorir að setja sig upp á móti byssueigendum. Obama forseti flýtur með straumnum – það er helst að Bloomberg, borgarstjóri í New York, andmæli.
Í nútíma borgarsamfélagi er það sturlun að hver sem er geti labbað inn í búð og keypt sér byssur og önnur öflug vopn. Hugmyndir Bandaríkjamanna um byssueign eru frá tíma stjórnarskrárinnar, þegar fólkið bjó í sveitum og þurfti að verjast villidýrum – jú, og kannski indjánum.
Viðkvæðið að þetta hefði ekki gerst ef gestir kvikmyndahússins hefðu líka verið vopnaðir afhjúpar fáránleika þessarar hugmyndafræði.