

Ég skrapp til Rómar. Það er auðvelt og ódýrt að komast hingað frá grísku eyjunum. Ítalir eru stærsti hópur ferðamanna þar.
Ég kom fyrst til Rómar fyrir 29 árum, var á á gistihúsi nálægt Campo di Fiore. Ég man ekki betur en Dagur Sigurðarson hafi bent mér á það, svo það var enginn lúxus.
Mér sýnist Róm hafa breyst ansi mikið síðan þá. Borgin er ansi mikið hreinni og velmegunarlegri. Áratugirnir fram til 2008 voru dæmalaus veltiár í Evrópu, það leynir sér ekki.
Ferðamönnum hefur líka fjölgað rosalega. Ég man eftir að hafa skoðað Colosseum og Trevi-gosbrunninn í ró og næði, þótt það væri hásumar. Nú er varla hægt að komast að Trevi fyrir mannfjölda og það eru langar biðraðir við Colosseum. Ég komst þangað inn á endanum – ég sá ekki kettina sem voru eitt aðaleinkenni staðarins fyrir þremur áratugum.
Maður getur látið ferðamannafjöldann fara í taugarnar á sér. En á honum er önnur hlið, fátt er órækara merki um velmegun og gott þjóðskipulag en að fólk geti ferðast að vild. Ferðalög eru frelsi.
Þegar ég var í Róm 1983 gat stór hluti Evrópubúa ekki ferðast. Þá var Austur-Evrópa lokuð. Kínverjar ferðuðust heldur ekki. Þetta hefur breyst – og fleira fólk hefur líka efni á að ferðast en áður. Vonandi breytist það ekki.
Það kemur líka til Íslands. Ísland er að fá mjög mikla umfjöllun sem ferðamannaland þessa dagana. Í gær sá ég opnugrein í stórblaðinu La Repubblica um ferðamannalandið Ísland – í Grikklandi hafa líka verið að birtast greinar og sjónvarpsmyndir frá Íslandi og margir hafa spurt mig hvor það sé svona stórkostlegt.
