
Nú er um það rætt að banna skoðanakannanir daginn fyrir kjördag og á kjördag.
Maður heyrir mótmæli úr fjölmiðlunum, að þarna sé vegið að frelsi þeirra – og að skoðanakannanir séu þjónusta sem almenningur eigi heimtingu á.
En skoðanakannanir eru líka skoðanamótandi. Vægi þeirra hefur aukist svo mikið að það nálgast algjöra mettun síðustu vikurnar fyrir kosningar. Fyrir vikið verða skoðanakannanir aðalatriðið þegar líður að kosningum – frekar en hugsjónir og stefnumál.
Allt fer að snúast kringum skoðanakannanirnar. Framhjá því verður ekki horft að þær gera pólitíkina tækifærissinnaðri – já, ómerkilegri.
Fjölmiðlamenn þurfa að skilja þetta þegar þeir hneykslast á þessum hugmyndum – í reynd kæmi vel til greina að gera skoðanakannanir útlægar heila viku fyrir kosningar.