
Þetta er þá orðin minnihlutastjórn – hún hefur svosem verið það að einhverju leyti hingað til.
En hún nýtur atfylgis Guðmundar Steingrímssonar í flestum málum og Róberts Marshall, sem nú hefur gengið til liðs við Bjarta framtíð. Eða þarf ríkisstjórnin að fara að semja við þá Guðmund og Róbert um öll mál?
Og stundum hleypur Hreyfingin líka undir bagga.
En þetta er orðið fjarskalega tæpt, ætti þá að duga fram á vor, nú er rétt rúmlega hálft ár til kosninga.
Af hverju kveður Róbert Marshall Samfylkinguna?
Er önnur skýring á því en að hann hafi séð að þingmannsferill hans væri á enda við óbreyttar aðstæður? Að hann myndi líklega detta úr. Vísast ætlar hann sér efsta sætið hjá Bjartri framtíð í einhverju kjördæmi þar sem flokkurinn á möguleika að ná þingmanni – það yrði þá væntanlega annað Reykjavíkurkjördæmið eða Kraginn.
En hins vegar blasir 5 prósenta reglan við Bjartri framtíð eins og illkleifur múr. Það er alveg jafn líklegt að flokkurinn fái engan mann á þing og Róbert breytir kannski ekki miklu um það. Með tvo brotthlaupna Samfylkingarmenn í forystu, styðjandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar, hefur flokkurinn varla mjög víða skírskotun.